139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:14]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Allt frá því að hættan var ljós af því að skuldbindingar Landsbankans vegna Icesave-reikninganna í Bretlandi og Hollandi féllu að einhverjum hluta á Ísland hefur það verið vilji íslenskra stjórnvalda að semja um lausn þessa máls. Um það vitna viðbrögð stjórnvalda allt frá árinu 2008, samningsdrög frá því sama hausti, ályktun Alþingis þess efnis að ganga til samninga og lög sem hafa verið samþykkt hér á Alþingi í tvígang með sama markmið í huga.

Viðbrögð stjórnvalda við stöðu þessa máls hverju sinni hafa verið að ítreka og undirstrika samningsvilja sinn í málinu. Þannig hefur verið reynt að halda landinu í eins miklu skjóli gagnvart afleiðingum þessa ömurlega máls og mögulegt er.

Fjárlaganefnd hefur fjallað ítarlega um það mál sem við greiðum hér atkvæði um. Er það mat níu nefndarmanna af ellefu að rétt sé að samþykkja það eins og það liggur fyrir. Það er mín von að með afgreiðslu Alþingis hér í dag verði bundinn endir á þetta ömurlega mál sem hefur skaðað íslenskt samfélag meira en flest önnur mál (Forseti hringir.) tengd efnahagshruninu sem varð hér haustið 2008. Ég segi því já.