139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er margslungið mál. Það er alveg ljóst að áhættan er mikil og hún er öll hjá Íslendingum eins og hér hefur verið bent á. Hún er öll hjá Íslendingum, hvort sem um er að ræða samning eða dómsmál, það er einfaldlega þannig og við hljótum að horfa á það þeim augum.

Það er annað sem spilar inn í þetta sem við getum ekki horft fram hjá heldur. Ég opnaði dagblað í morgun og þar stóð: Gjör rétt, þol ei órétt. Að sjálfsögðu snýst þetta líka um það að verið er að kúga Íslendinga til að taka á sig ólöglegar byrðar. Hverjir gera það? Jú, meintar vinaþjóðir sem búa hér í nágrenni við okkur, Evrópusambandsþjóðirnar. Evrópusambandið kúgar Íslendinga til að taka á sig byrðar sem þeim ber ekki að axla. Ætla menn virkilega að sitja undir því þegjandi og hljóðalaust? Ég segi nei.

Enn standa yfir árásir á vefsíðuna kjósum.is. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja fólk til að sýna þolinmæði og ég vil líka hvetja hæstv. forseta til að gefa öllum þingmönnum sama rétt í ræðustól og hafa jafnræði milli ræðumanna. Þannig hefur það ekki verið hér í þessum ræðustól. (Forseti hringir.)

Ég vil segja við þingmenn og þingheim allan: (Forseti hringir.) Það er mikil ábyrgð að samþykkja þennan samning og það er mikil áhætta sem í því felst. Það er líka áhætta að fara í dómsmál. (Forseti hringir.) En það sem við vitum þó er að með samningnum munum við greiða eitthvað, en það er ekki ljóst með dómsmálið.