139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir allt það sem sagt hefur verið um það hversu skelfilegt Icesave-málið hefur verið frá upphafi til enda. Það er eðlilegt að í því séu skiptar skoðanir, m.a. hjá okkur sjálfstæðismönnum. Félagar mínir hafa lýst því yfir að þeir styðji málið í þessari atkvæðagreiðslu og gert þá grein fyrir afstöðu sinni að þeir telji að sá samningur sem nú liggur fyrir sé sá hagstæðasti sem í boði er. Ég tel að sú afstaða byggist á heiðarlegu mati þeirra á því hvað er hagsmunum þjóðarinnar fyrir bestu og ég virði þá niðurstöðu.

Í mínum huga er hins vegar ljóst að hvorki íslensk lög né evrópsk mæla fyrir um skyldur íslenska ríkisins og íslensku þjóðarinnar til að taka á herðar sínar skuldbindingar sem Landsbanki Íslands stofnaði til í Hollandi og Bretlandi. Þar sem slíka lagaskyldu skortir mun ég ekki styðja frumvarpið. Ég segi nei.