139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[15:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil að gefnu tilefni taka fram að ég er í sama flokki og hv. þm. Kristján L. Möller og við höfum mjög svipaðar skoðanir bæði á atvinnumálum og atvinnuuppbyggingu og vonandi á umhverfismálum og náttúruvernd þegar á heildina er litið og nógu djúpt er skyggnst. Þess vegna er kannski rétt að segja þótt seint sé að ég styð ákvörðun Kristjáns Möllers þegar hann var sveitarstjórnar- og samgönguráðherra 31. ágúst 2009 og felldi þann úrskurð að ekki væri að finna heimild í skipulags- og byggingarlögum til að aðrir gætu borið kostnað sem hlytist af aðalskipulagi líkt og leyfilegt er í ákveðinni grein þeirra laga, þ.e. var því að þau eru fallin úr gildi, að framkvæmdaraðili bæri kostnað sem hlytist af deiliskipulagi. Ég taldi það upp í ræðu minni í utandagskrárumræðunni í gær sem ég var sumsé viðstaddur og núverandi hv. málshefjandi hóf líka þá. Ég taldi margar ástæður að baki þeirri ákvörðun sem hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir tók. Þetta var ein þeirra.

Það er svo rétt hjá hv. þm. Kristjáni Möller, annaðhvort væri nú, að nú hefur lögum verið breytt og mín niðurstaða um þá breytingu sem ég stóð sjálfur fyrir sem nefndarmaður í umhverfisnefnd er sú að samningur Landsvirkjunar og Flóahrepps frá júlí 2007 stæðist ekki þá grein sem nú er komin í skipulagslögin og segir vissulega — og eðlilega, ég stóð að þessari breytingu — að sveitarfélagi sé heimilt að rukka framkvæmanda fyrir þátt í aðalskipulagi en ekki krónu umfram það sem það aðalskipulag kostar. Á því mundi þessi samningur falla (Forseti hringir.) af ástæðum sem ég og aðrir höfum margrakið hér í umræðu, langdreginni og langvinnri, um þetta mál við málshefjanda og aðra þingmenn hér í salnum.