139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[15:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hv. formaður utanríkismálanefndar svaraði þeim spurningum sem ég hafði lagt fyrir hann um það hvers vegna þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins væri föst í utanríkismálanefnd. Tillagan gengur út á það að þjóðin fái að tjá hug sinn um aðlögun Íslands að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort halda eigi áfram eða stoppa núna.

Ég fór yfir það að komin var fram breytingartillaga sem ég flutti sjálf og skrifaði undir að þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram ekki seinna en 28. maí 2011. Mér finnst mjög undarlegt að hv. formaður nefndarinnar komi hér fram nú og segi mér þær fréttir og þingheimi að það sé búið að ákveða að ræða hér annað mál með þessari tillögu sem bíður fullburða í utanríkismálanefnd. Það á einungis eftir að taka hana út úr nefnd og það eru tímamörk á henni. Það er undarlegt að það eigi að ræða hana með máli sem er á dagskrá hér í dag sem á eftir að fara til umsagnar sem er a.m.k. þriggja vikna ferli. Það sýnir þörf þess að stofna hér lagaskrifstofu Alþingis svo einhver heildarsýn sé yfir málin. Það er lágmark, frú forseti, að flutningsmaður breytingartillögunnar hefði verið látinn vita af þessu fyrr því að ég sé það í hendi mér að ef þessi tillaga formanns utanríkismálanefndar stendur verð ég að leggja fram breytingartillögu og breyta þessari dagsetningu. Ef farið er fram á þjóðaratkvæðagreiðslu sem ekki er ákvæði um í stjórnarskrá skulu líða a.m.k. þrír mánuðir frá því að Alþingi samþykkir þá tillögu og þar til þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram.

Ég (Forseti hringir.) get lagt fram nýja breytingartillögu, það er ekki vandamálið, en að sjálfsögðu hinkra ég og sé til hvað forseti gerir (Forseti hringir.) með Icesave-samninginn og 26. gr. Vonandi geta þessi tvö mál þá farið saman í þjóðaratkvæðagreiðslu.