139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

störf þingsins.

[16:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég hef verið að hlusta á þingmenn ræða hér ýmis mál. Ég vil koma með athugasemdir út af tveimur þáttum, annars vegar út af þeirri umræðu sem var milli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og Árna Þórs Sigurðssonar um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB. Ég held að það sé í fyllsta máta eðlilegt að menn bíði í utanríkismálanefnd eftir að klárað verði að ræða tillögu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur, sem er á dagskrá í dag og fjallar um afturköllun umsóknarinnar. Að mínu mati er eðlilegt að fjallað verði um þær saman og þingið geti þá tekið afstöðu til þeirra tillagna þegar þar að kemur og utanríkismálanefnd metur svo.

Hitt er síðan að ég vil veita hv. þm. Kristjáni L. Möller tækifæri til að bera af sér sakir. Ég hjó eftir því að hv. þm. Mörður Árnason sagði að þeir væru nákvæmlega sömu skoðunar í atvinnumálum, hv. þm. Mörður Árnason og Kristján L. Möller. Ég vil þá einfaldlega fá það áréttað af hv. þingmanni að hann sé nákvæmlega sömu skoðunar og hv. þm. Mörður Árnason. Við vitum alveg hvaða skoðanir hann hefur varðandi atvinnuuppbyggingu. Ég vil líka fá það staðfest hvort hv. þingmaður styðji ekki örugglega sitt samfylkingarfélag í Norður-Þingi sem ályktaði mjög einarðlega um það að halda áfram með þau fyrirheit um að beita sér fyrir rannsóknar- og orkuöflun á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslu og einnig það að þau væru algjörlega mótfallin ákvörðun stjórnvalda um algjöra friðun Gjástykkis. Ég spyr hvort hv. þingmaður taki ekki örugglega undir þetta og sé sammála mér í því að við þurfum að fara að stuðla að verðmætasköpun og uppbyggingu en vera ekki alltaf með þessar girðingar, stundum þvergirðingar þvert yfir atvinnulífið til að hindra uppbyggingu þess, hvort sem er norðan heiða eða sunnan lands.