139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

metanframleiðsla.

251. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu sem hv. þm. Arndís Soffía Sigurðardóttir er 1. flutningsmaður að en ásamt henni og undirrituðum eru hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þuríður Backman, Björn Valur Gíslason, Auður Lilja Erlingsdóttir, Skúli Helgason, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Margrét Tryggvadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Oddný Harðardóttir, Magnús Orri Schram, Unnur Brá Konráðsdóttir og Birkir Jón Jónsson flutningsmenn.

Tillagan felur það í sér að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir aukinni og markvissri metanframleiðslu í landinu og leita eftir samstarfi við sveitarfélög, einstaklinga og lögaðila í því skyni. Jafnframt að ríkisstjórnin hafi forgöngu um að marka heildstæða stefnu um nýtingu metans og taki höndum saman við hagsmunaaðila um rannsóknir, fjármögnun og framvindu hagfelldra kosta við metanframleiðslu.

Virðulegi forseti. Það er ekki að ófyrirsynju að flutt er mál um metanframleiðslu á Íslandi. Við höfum nú nýlega samþykkt hér á þinginu, í tengslum við gerð fjárlaga, ívilnanir til þeirra sem láta breyta bílum í metanbíla. Við höfum einnig ákveðið að andlag til skattlagningar á bílakost sé kolefnislosun sem gerir metani afar hátt undir höfði vegna þess að bruni metans er miklu betri og öruggari en margra annarra kolefniseldsneyta sem gerir að verkum að brennt metan verður miklu minni gróðurhúsalofttegundagjafi, ef svo má að orði komast, en ella væri.

Það er fyrirsjáanlegt að við munum a.m.k. næstu áratugina þrátt fyrir allan vilja og alla þá þróun sem kann að verða í framleiðslu annarra samgöngukosta þurfa að treysta mjög á kolefniseldsneyti, sérstaklega til að knýja bifreiðar, jafnvel skip. Því meira sem við getum framleitt af þessu eldsneyti hér innan lands því betra. Metan, sem verður til við niðurbrot lífræns úrgangs og efnahvörf í lífrænum úrgangi, er hægt að nýta til að knýja farartæki og aukningin í þessari notkun hefur verið mikil undanfarin ár. Til að mynda jókst hún á árinu 2010 um 35% miðað við árið 2009. Vissulega er það ekki svo enn að þúsundir metanbifreiða séu á götunum né heldur að hundruð metanstöðva standi bíleigendum til boða. Í dag eru þær tvær og eru eingöngu hér á höfuðborgarsvæðinu.

Það er hins vegar afar mikilvægt að stjórnvöld marki sér stefnu í þessu máli og ýti úr vör einhvers konar framkvæmdaáætlun þannig að við getum sett niður einhvers konar stiklur í því hversu mikið af því jarðefnaeldsneyti eða kolefniseldsneyti sem við þó þurfum að nota verði framleitt innan lands og með sjálfbærum hætti. Við erum þegar í einhverjum mæli byrjuð að framleiða bíódísil hér á landi og það er vel, en alls staðar þar sem eru sorphaugar, fjóshaugar eða haughús þar verður til metan. Það er brýnt umhverfismál í sjálfu sér að uppskera, ef maður getur sagt sem svo, það metan sem þannig verður til, brenna því og nota þannig orkuna úr því fremur en að láta það allt leka út í andrúmsloftið. Þess vegna er mikilvægt að tillaga eins og þessi nái fram að ganga.

Áhuginn á metanvæðingu í samgöngum og iðnaði hefur aukist mjög mikið. Það sést meðal annars á því að nokkuð víðtækur stuðningur er meðal þingmanna við þessa tillögu. Ég tel afar brýnt að skoða þetta, bæði í sambandi við metanframleiðslu í tengslum við sorphauga en ekki síður í tengslum við haughús og það metan sem fellur til til sveita. Víða erlendis eru menn farnir að skoða möguleikann á því að knýja jafnvel landbúnaðarframleiðslu með metani sem fellur til á viðkomandi búi. Þetta er afar áhugaverð leið og enn einn kubburinn í umræðuna um vistvæna framleiðslu og sjálfbæran búskap. Við Íslendingar eigum að reyna, ef við mögulega getum, að skoða þetta ítarlega og reyna að stíga jákvæð skref í þessa átt og auka líkurnar á því að við getum jafnvel einnig orðið sjálfbær um orku eins og við erum nú þegar á mörgum öðrum sviðum.

Ég legg til að tillagan fari til iðnaðarnefndar og fái þar ítarlegri umfjöllun.