139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[17:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Hann er nú búinn að útskýra það fyrir mér að hann telji enga aðlögun vera í gangi, að menn séu ekki í aðlögunarferli heldur aðildarviðræðum. Það stangast á við ýmsar upplýsingar og fullyrðingar sumra hv. þingmanna og hæstv. ráðherra í hans eigin þingflokki, þess vegna spurði ég um það.

Ég þekki fjárlögin mjög vel eins og hv. þingmanni er ábyggilega kunnugt um. Þar kom til að mynda fram að þegar fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins ásamt ráðuneytisstjóra þess ráðuneytis mættu á fund í fjárlaganefnd kom fram að þau verkefni sem ráðuneyti væri að vinna mundu, ef vinna ætti þau sómasamlega, kosta 40–50 milljónir. Það er ekki í fjárlögum til ráðuneytisins en það kom mjög skýrt fram að ef menn ætla að vinna þessi verkefni setja þeir bara annað til hliðar á meðan. Það er því dálítið erfitt að festa hönd á hve miklu er í raun eytt í umsóknina, menn fara alls konar krókaleiðir í þeim efnum, sem er ekki gott.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um styrki frá Evrópusambandinu, sem oft hafa verið ræddir. Það er víst svo, sem ég tel reyndar mjög sérkennilegt, að sumir hæstv. ráðherrar þiggja ekki styrkinn en aðrir gera það. Sumir hv. þingmenn hafa að sagt að menn fari einhverjar hliðargötur til þess, þ.e. að hæstv. ráðherrar Vinstri grænna muni ekki þiggja styrkina heldur muni hann renna til samninganefndarinnar eftir krókaleiðum. Mér er ekki kunnugt um hvort það er rétt.

Af því að við viljum hafa málefnalegar umræður og ég þykist vita að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson þekki málið til hlítar, langar mig að spyrja hann hvort menn fari einhverjar krókaleiðir til að ná í styrki. Ég veit að hv. þingmaður mun svara því heiðarlega og hreinskilnislega.