139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi kostnaðartölurnar tek ég undir með hv. þingmanni að að sjálfsögðu er mikilvægt að það sé opið og gegnsætt og við vitum nákvæmlega að hverju við göngum í því efni. Mér finnst í sjálfu sér eðlilegast að það sé hv. fjárlaganefnd, sem á að hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga, sem kalli þá eftir frekari gögnum þar að lútandi. Það stendur ekkert á mér að leggja mitt lóð á vogarskálarnar í því efni ef ég get komið því við. Mér finnst það vera verkefni fjárlaganefndar fyrst og fremst, en það kannski skiptir ekki öllu máli, það á að gerast á vettvangi þingsins. Við eigum að hafa eftirlit með útgjöldum ríkissjóðs.

Varðandi aðlögunarviðræðurnar og heimasíðu Evrópusambandsins þá er alveg ljóst að Evrópusambandið er með einhvern ákveðinn ramma sem það leggur fram fyrir viðræður við umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef skoðað það sem hv. þingmaður og fleiri hafa verið að segja um að komi fram á heimasíðu Evrópusambandsins. Það er alveg ljóst að þar eru ákveðnar viðmiðunarreglur sem settar eru fram af hálfu Evrópusambandsins.

Það hefur hins vegar alltaf komið fram, í öllum umræðum sem við höfum átt við Evrópusambandið, að þessu er ekki þannig farið að við þurfum fyrir fram að gangast undir einhverja skilmála. Það hefur stundum verið vitnað hér í svokallaða opnunar- eða lokunarskilmála eða skilyrði í sjálfu viðræðuferlinu, m.a. vísað í Króatíu í því efni. Ég hef líka kannað það hvers konar skilyrði það hafa verið. Þau skilyrði sem þar hafa komið fram hafa verið tvenns konar: Það eru annars vegar hlutir sem lúta að mannréttindamálum og samskiptum Króatíu við Alþjóðastríðsglæpadómstólinn í Haag. Það eru eðlilegar ástæður sem þar liggja að baki.

Í öðru lagi hefur það verið skilyrði að fyrir liggi, af hálfu króatískra stjórnvalda, framkvæmdaáætlanir um það hvernig það hyggist laga regluverk sitt að reglum Evrópusambandsins þegar aðildin tekur gildi. Það er það sem verið er að gera gagnvart okkur, það er verið að segja: Þið verðið að hafa trúverðugar áætlanir um það hvernig þið ætlið að laga ykkur að regluverki okkar, en aðlaganir fyrir fram, áður en þjóðin hefur (Forseti hringir.) tekið ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu, er ekki til staðar.