139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim vilja sem birtist í yfirlýsingu hv. þingmanns um það að reyna að koma því á hreint hver kostnaðurinn er og þá með tilstilli fjárlaganefndar. Við einhendum okkur þá væntanlega í það í sameiningu að fá fjárlaganefnd til að taka það saman og ég fagna því. Það eru einfaldlega hagsmunir okkar allra að þetta liggi hreint fyrir.

Aðeins nánar varðandi aðlögunina þá er það þannig að leiðtogaráð Evrópusambandsins gaf út yfirlýsingu í júlí þegar ákveðið var að fara formlega í viðræður við Ísland þar sem eftirfarandi kemur fram, með leyfi forseta:

„Nákvæmar viðmiðanir munu, allt eftir hverjum kafla, m.a. vísa til aðlögunar löggjafarinnar að regluverkinu og til þess hvort staðið hafi verið með fullnægjandi hætti við að innleiða meginþætti regluverksins þar sem sýnt er fram á nægilega getu stjórnsýslu og dómstóla.“

Þarna er eitt dæmi sem kemur fram í þessari yfirlýsingu leiðtogaráðsins. Jafnframt segir:

„Farið verður fram á það við Ísland að það tilgreini afstöðu sína með tilliti til regluverksins og geri grein fyrir því hve vel miði áfram við að uppfylla viðmiðanirnar. Rétt innleiðing Íslands á regluverkinu og framkvæmd þess, þ.m.t. árangursrík og skilvirk beiting af hálfu viðeigandi stofnana á sviði stjórnsýslu og dómsmála, mun ákvarða hversu hratt samningaviðræðurnar ganga fyrir sig.“

Ég tel því augljóst, miðað við lestur þessa skjals, að aðlögun þarf að fara fram áður en samningaferlinu lýkur. Það kemur fram hérna. Ef það er ekki rétt hjá mér að draga þá ályktun miðað við þennan texta, sem m.a. er birtur á heimasíðu utanríkisráðuneytisins, hlýtur að vera að veitt hafi verið undanþága frá þessu ferli. Það hefur ekki verið upplýst í umræðunni og ekki heldur þegar ég átti utandagskrárumræðu við hæstv. utanríkisráðherra um að slík undanþága hafi verið veitt. Það er því ekki skrýtið að menn séu eitt stórt spurningarmerki þegar deilt er um það hvort aðlögun sé í gangi eða ekki. Eitt stendur á heimasíðunni, annað er fullyrt hér í umræðunni (Forseti hringir.) af hæstv. utanríkisráðherra, sem reyndar hefur sagt að engin aðlögun sé í gangi, en ef ríkisstjórnin leggi fram mál sem (Forseti hringir.) breytir regluverki Íslands til samræmis við það sem Evrópusambandið vill sé það einfaldlega ákvörðun (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar. En í því felst aðlögunin ef hún er í því fólgin (Forseti hringir.) að uppfylla skilyrði sem Evrópusambandið hefur sett.