139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er að ræða um þessa svokölluðu tæknilegu aðstoð sem Evrópusambandið á að veita og var rædd í fjölmiðlum. Við getum sótt okkur tæknilega aðstoð við að afnema gjaldeyrishöftin til Bretlands, Hollands eða annarra landa. Það er eingöngu búið að bjóða eitthvað sem heitir tæknileg aðstoð við að afnema gjaldeyrishöft, ekkert annað af hálfu Evrópusambandsins, ef eitthvað er að marka þær fréttir og það sem haft er eftir ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Ég held að það sé komið í ljós að í rauninni er það ekki tegund gjaldmiðilsins sem skiptir máli. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við fáum munu Íslendingar eiga þrjú atkvæði í ráðherraráðinu sem er skipað 350 fulltrúum ef ég skil þetta rétt. Í Evrópuþinginu munum við eiga fimm atkvæði af 750. (Gripið fram í: Sex.) Sex atkvæði, ókei. Þótt þau væru tíu af 350 er það samt lítið. Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að hagsmunir Íslands séu tryggðir í þessum (Forseti hringir.) stofnunum, á þessari 750 manna fjöldasamkomu, með því að eiga þarna (Forseti hringir.) sex atkvæði af 750?