139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:31]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég virði hv. þingmann fyrir að tala skýrt og fagna því að svo sé þó að ég sé ekki sammála henni. Ég hélt að við hefðum fengið stórfréttir um að ríkisstjórnin og þar af leiðandi samstarfsflokkur Samfylkingarinnar væri komin með þá stefnu að ganga í Evrópusambandið. Það er þá upplýst að svo er ekki, a.m.k. ekki enn.

Ég held að það sé gott að þessi umræða fari fram. Ég tel gott að allir eru sammála um að reyna að byggja umræðuna á málefnunum og réttum upplýsingum. Eins og ég kom aðeins inn á í ræðu minni hefur okkur gengið hálferfiðlega að fá fólk til að tala jafnskýrt og hv. þingmaður gerir. Ég vonast til að við leggjumst öll á árarnar, sama hvaða skoðun við höfum á umsókninni að Evrópusambandinu, við að leiða í ljós réttar upplýsingar og vísa ég þá sérstaklega til þeirrar umræðu sem fór fram fyrr í dag varðandi kostnaðinn og að fá fjárlaganefnd til liðs við okkur til að koma því á hreint í eitt skipti fyrir öll (Forseti hringir.) hve miklum fjármunum er varið til umsóknarinnar.