139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram. Þetta er eitt af stærri málum sem sitjandi þingmenn taka þátt í að afgreiða þessa dagana. Ástæðan fyrir því að sú tillaga sem hér er til umfjöllunar er sett fram er, að mati þess sem hér stendur a.m.k., að óheppilegt sé að vera í því ferli sem því miður var farið í, ekki síst á þeim tíma þegar Íslendingar þurfa að beina kröftum sínum annað. Í öðru lagi er Evrópusambandið sjálft í gríðarlegum vandræðum, efnahagslegum og stefnulega. Þeir eru að endurskoða ákveðna hluti í stefnu sinni sem væri að sjálfsögðu skynsamlegra að bíða eftir til að sjá hver þróunin verður. Miðað við þær tímasetningar sem við höfum verður þeirri skoðun, eins og á sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnunni, líklega lokið eða um það bil að ljúka þegar við göngum í sambandið gangi allt eftir. Við munum því ekki hafa áhrif á hvernig sú stefna lítur út til næstu framtíðar.

Nú hefur líka mikið verið rætt um að gjaldmiðillinn sé eitt af því sem við Íslendingar þurfum að breyta. Við þurfum að taka upp annan gjaldmiðil. Það kann vel að vera að það komi að því að við þurfum þess. Um það deila hins vegar fáir að krónan hjálpar okkur eins og staðan er. Ég ætla ekki að fullyrða að það verði svo um óbreytta tíð að sá gjaldmiðill þjóni okkur. Ég treysti mér einfaldlega ekki til að fullyrða það. Raunverulegt mat á því hvaða kostir eru varðandi framtíðargjaldmiðil fyrir Ísland hefur ekki farið fram og deili ég hart á stjórnvöld fyrir það, ekkert endilega bara núverandi stjórnvöld. Það kunna að vera miklu fleiri kostir en sá sem hvað oftast er nefndur í þessu sambandi, þ.e. evran.

Frú forseti. Umhverfið sem við Íslendingar störfum og vinnum í á heimsvísu breytist mjög hratt. Nýir markaðir og tækifæri skapast og við eigum þess vegna að meta stöðuna út frá því. Er hagsmunum Íslands endilega best borgið til framtíðar með því að fela t.d. Evrópusambandinu, sem ég hel að verði óhjákvæmilega, umboð til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki fyrir okkar hönd, eða verðum við farþegar í þeim samningum sem Evrópusambandið gerir? Viljum við hafa það svoleiðis þegar ljóst er að ríki eins og Kína, Indland, lönd í Suður-Ameríku og jafnvel víðar horfa fram á að þurfa að gera viðskiptasamninga við ríki sem framleiða t.d. matvöru og matvæli?

Fram kom á fyrirlestri sem ég sótti um daginn að fram undan, á næstu áratugum, yrði verulegur matarskortur í heiminum, slegist yrði um hverja tutlu sem hægt væri að fá í matinn. Það hefur líka sýnt sig á hækkandi matarverði víða um heim sem við lesum um í fjölmiðlum. Því tel ég engin rök og í rauninni galin rök að segja að viðskiptahagsmunum Íslands sé betur borgið með því að ganga í Evrópusambandið vegna þess að í því séu svo mörg viðskiptalönd Íslands. Það er alveg rétt að við stundum gríðarlega mikil viðskipti við lönd Evrópusambandsins, en við vitum líka og sjáum með hækkandi matarverði og aukinni eftirspurn eftir helstu útflutningsvöru okkar, fiski, og eftir kjöti og öðrum landbúnaðarafurðum, svo ég tali bara um þann hluta, að fleiri markaðir munu opnast og verð eflaust hækka og slagur verða um vöruna. Þess vegna tel ég alveg galið að ganga í Evrópusambandið, í ríkjasamband sem mun taka af okkur samningsréttinn. Ég hef ekki heyrt deilt um að Evrópusambandið muni sjá um slíka samninga fyrir okkar hönd.

Annað sem er mjög villandi í allri umræðu og sambandssinnar vilja halda á lofti er það að með því að ganga í Evrópusambandið muni vaxtakjör almennings og fyrirtækja bara breytast á einni nóttu. Vitanlega er það ekki svo. Vextir eru mjög breytilegir innan Evrópusambandsins. Ég hef þá trú að það séu aðrir þættir, peningamálastjórnin hér heima, hagstjórnin, stefna Seðlabankans og annað, sem hafi ekki síst áhrif á hvernig vaxtakjör þróast. Vextir í Bretlandi, Hollandi, Spáni, Írlandi, Grikklandi og Þýskalandi eru hverjir úr sinni áttinni þó svo að þessar þjóðir séu með sama gjaldmiðil. Það er því villandi og beinlínis rangt að halda því fram að vextir í Evrópusambandinu séu eitthvað sem við getum bara gengið að sem vísu. Þeir munu að sjálfsögðu ráðast af efnahagsástandinu í landinu rétt eins og þeir ráðast m.a. af efnahagsástandi og efnahagsstjórn þeirra þjóða sem eru nú aðilar að Evrópusambandinu.

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er ekki sú stefna sem Íslendingar vilja taka upp, það er alveg ljóst, enda er verið að endurskoða þá stefnu. Ég held að Evrópusambandið sé búið að átta sig á því að hún gengur ekki upp. Það gengur ekki upp að henda milljón tonnum af fiski í sjóinn á ári eins og hefur komið fram, slíkt er algjörlega óásættanlegt. Hins vegar fullyrða margir að Íslendingar geti haft áhrif á sjávarútvegsstefnuna. Ég ætla ekki að gera lítið úr því, eflaust getum við haft einhver áhrif, en auðvitað verður það eins og alltaf: Þeir stóru munu að sjálfsögðu ráða hvernig stefnan verður; Spánverjar, Bretar, Frakkar. Þær þjóðir Evrópusambandsins sem eru miklar sjávarútvegsþjóðir munu ekki láta Íslendinga segja sér fyrir verkum um hvernig sjávarútvegsstefnan eigi að líta út, allt of miklir hagsmunir eru í húfi til að þær gefi það eftir.

Ljóst er að lítil ríki innan Evrópusambandsins hafa og munu hafa minna vægi en áður. Nægir þar að nefna frétt sem var birt í Financial Times nýlega. Mig langar aðeins að vitna í hana. Þar segir m.a. að Þjóðverjar og Frakkar ætli að þvinga minni ríki í evrusamstarfinu til að samþykkja víðtæka samræmingu á efnahagssvæði evrunnar. Það á að færa efnahagsleg völd og áhrif frá litlu ríkjunum til miðstýringarinnar. Einhverjum kann að finnast það snjallt, að gott sé fyrir Íslendinga að afsala sér slíkum völdum eins og við höfum farið með efnahagsstjórn. En því fylgir ýmislegt annað. Verið er að tala um 17 ríki sem hafa lögeyri, þ.e. evru. Afnám verðtryggingar á laun er eitt af því sem er nefnt, samræmdur lífeyrisaldur og sameiginleg skattapólitík. Eru þetta allt þættir sem við viljum afsala okkur? Ég segi snarlega nei, enda hafa Belgar sem eru hjartað í Evrópusambandinu mótmælt þessu harðlega því að þeir eru t.d. með verðtryggingu á launum. Það eru að sjálfsögðu stóru ríkin, Þjóðverjar og Frakkar, sem keyra þetta áfram því að þau eru ekki tilbúin til að bera endalaust uppi hagkerfi evrusamstarfsins sem Evrópuríkin eru í.

Við sáum Írland falla og við sáum Grikkland falla. Portúgal riðar til falls og Spánn. Mig minnir að í umræðum hafi komið fram að þau lánakjör sem Spánverjar hafa nú séu verri en Íslendingar hafa eða stefni í það. Það er mjög merkilegt. Það hlýtur að vera gott fyrir okkur að vita að Icesave-samkomulagið, ef það verður samþykkt á endanum og undirritað af forseta og nær fram að ganga og þjóðin fær ekki að greiða atkvæði um það, hlýtur að bæta stöðuna enn frekar miðað við þær yfirlýsingar sem hér hafa verið. En er okkur betur borgið í bandalagi sem hefur ekki einu sinni burði til að hjálpa þeim ríkjum sem þar eru núna og koma í veg fyrir að þau fari á þennan veg? Eina leiðin sem hefur hvað eftir annað komið upp virðist vera sú að draga úr möguleikum þessara ríkja til að stýra efnahagsstefnu sinni. Það hefur m.a. komið fram í orðum Angelu Merkel að mig minnir, ég ætla að hafa fyrirvara á því.

Mörg Evrópuríki sem sjá sér ekki hag í því að vera með evru sem gjaldmiðil heldur hafa tengt mynt sína við evruna, t.d. Danmörk. Svíar vilja ekki taka upp evru heldur og Bretar eru vitanlega með sitt pund. Það er því ekki allt á sömu bókina lært í þeim efnum.

Hér hefur verið rætt um hvernig Evrópusambandið og sendimenn þess tala og túlka hvað þar sé í gangi. Ég hef ásamt fleiri þingmönnum átt fundi með þingmönnum frá Evrópusambandinu og Evrópusambandsríkjunum. Ég verð að segja, frú forseti, að það fer ekki á milli mála af samtölum við þessa þingmenn að Íslendingar eiga enga aðra kosti en taka við þeim reglum sem Evrópusambandið býr við. Við getum lagað okkur að þeim. Það kalla ég aðlögun. Við erum að undirgangast fyrirliggjandi reglur (Forseti hringir.) Evrópusambandsins.