139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Má þá skilja það sem svo að þetta ferli, ég bara ítreka spurningu mína, sem nú er í gangi með hinum og þessum skilyrðum af hálfu Evrópusambandsins eingöngu, ekki af hálfu Íslendinga — má þá skilja það sem svo að stefna framsóknarmanna sé algjörlega skýr í þessu efni? Nú hafa skoðanir verið skiptar um þetta mál innan raða Framsóknarflokksins og má þá skilja það sem svo að Framsóknarflokkurinn sé þá mótfallinn því ferli sem nú sé í gangi og telji heppilegast að taka málið upp úr þessum farvegi? Er það þá ekki svolítið sérstakt — maður heyrir oft hv. þingmenn, til að mynda hæstv. utanríkisráðherra, tala um að stefna þess flokks sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Eru þessi ummæli hæstv. utanríkisráðherra og fleiri manna þess efnis ekki þá svolítið sérstök? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta ferli muni enda og hvað leggur hann til að gert verði? Ef við ætluðum t.d. að fara eftir stefnu framsóknarmanna, að sækja um með þessum skilyrðum, hvernig sæi hann fyrir sér að málið yrði tekið upp og látið reyna á hvort það væri hægt?