139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[18:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, og það hefur löngu komið fram, að það eru mismunandi túlkanir á stefnu Framsóknarflokksins og innan flokksins líka. Ég get ekki staðið hér og túlkað fyrir alla, það er einfaldlega ekki þannig, ég get það ekki. Kannanir hafa hins vegar hvað eftir annað sýnt, skoðanakannanir, hvort sem við tökum nú mark á þeim eða ekki, að andstaða framsóknarmanna, eða mögulegra kjósenda þeirra, við að ganga í Evrópusambandið er frá því að vera u.þ.b. 80% upp í 92%. Það er nú býsna skýr niðurstaða. Í þeim könnunum þar sem þetta hefur verið mælt eru engir kjósendur jafnskýrir í afstöðu sinni og mögulegir kjósendur Framsóknarflokksins.

Ferli það, svo ég ítreki það nú sem ég sagði áðan, sem nú er í gangi samræmist að mínu viti alls ekki þeirri stefnu sem við lögðum fram. Hún var skilyrt því að látið yrði reyna á ákveðna hluti áður en farið yrði í allt þetta ferli. Og ég sakna þess að ekki hafi verið hægt að láta reyna á helstu hagsmuni Íslands. Þess vegna er það þannig að við erum komin inn í ferli sem við ráðum ekkert við, við bara fylgjum því og skilyrðin eru vitanlega öll af hálfu Evrópusambandsins eins og komið hefur fram.

Hvað þyrfti að breytast? Það sem þyrfti að breytast væri það að Evrópusambandið mundi vilja setjast niður með okkur og ræða við okkur út frá þeim skilyrðum sem við setjum fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Það hefur verið margsagt við þann sem hér stendur að Evrópusambandið muni aldrei laga sig að Íslandi. Ég held að það sé nokkuð ljóst að það mun ekki gerast. Þar af leiðandi held ég að við eigum enga samleið með Evrópusambandinu. Okkar land og það sem við höfum upp á að bjóða er vitanlega miklu betra en það sem þar er.

Kannski er einfaldast að svara spurningunni á þennan veg: Sú vegferð sem nú er hafin og er á fullu spani rímar ekki að mínu viti við stefnu Framsóknarflokksins. Ef það rímaði við hana værum við að vinna eftir þeirri ályktun og þeirri tillögu sem því miður var felld hér í þinginu.