139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér staðfestir hv. þingmaður það að menn fari krókaleiðir til að friða grasrótina í Vinstri grænum og láti samninganefndina sækja um styrkina, eins og haldið hefur verið fram í umræðunni. Nú er það staðfest að farið sé í kringum hlutina og styrkirnir teknir í gegnum samninganefndina. Það er hreint með ólíkindum að þetta sé með þessum hætti, að menn skuli ekki segja hlutina eins og þeir eru (Utanrrh.: Ég hef sagt þetta hér á þingi margoft.) og fara í kringum þá eins og gert er. (Gripið fram í.) Já, það getur vel verið að hæstv. utanríkisráðherra hafi sagt þetta, (Gripið fram í.) já, já, ég hlusta misvel á hann.

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann hvort það hafi verið sérstaklega rætt í þingflokki Vinstri grænna, því að ég er mjög hugsi yfir þeim upplýsingum sem ég er að heyra fyrst núna um Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, þó að hún hafi alla mína samúð vegna niðurskurðar er ég mjög hugsi yfir því að það skuli vera háskólinn eða stofnun innan hans sem sækir um þessa styrki til að kynna Evrópusambandið. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög óeðlilegt ef verið er að moka út fé til að kynna þetta að láta þá opinbera aðila um það. Ég man ekki betur en menn væru með það í fjárlögunum, til að hafa umræðuna upplýstari og í betra jafnvægi væru einmitt settir peningar í það bæði fyrir þá sem væru að mæla með því og á móti. Þetta kemur mér verulega á óvart. Ég (Forseti hringir.) vildi biðja hv. þingmann að svara því aðeins betur hvað honum finnist um þetta.