139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er alveg rétt, ég er fylgjandi því að þjóðin taki í auknum mæli ákvörðun með beinum hætti, rétt eins og hv. þm. Róbert Marshall fór í forsvari fyrir þeim sem voru fylgjandi því að fjölmiðlafrumvarpið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma.

Mönnum er kannski minnisstætt að þegar þessi umsókn var til umræðu í þinginu sumarið 2009, kom einmitt fram tillaga um að setja þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en farið væri af stað. Af hverju vildi ég að það færi í þjóðaratkvæðagreiðslu þá, af hverju vildi ég það? Af því að þetta ferli er ekki einfalt samningaferli. (RM: Viltu ekki svara spurningunni?) Bíddu, þetta ferli er ekki einfalt samningaferli, ferlið felur í sér að Ísland þarf að taka upp ýmsar breytingar í stjórnsýslu sinni meðan á ferlinu stendur. Það eru komnar kröfur um slíkt og þær munu í auknum mæli berast og birtast. Ég sit í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, þar eru að koma kröfur þegar kemur að landbúnaði einmitt vegna þess að þetta eru ekki einfaldir samningar. Þá var eðlilegt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en farið var af stað, áður en lagt var af stað í þetta ferli.

Þá hlýtur maður líka að geta spurt sig á móti: Af hverju eru menn mótfallnir því, rétt eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á í ræðu sinni áðan, að fram fari einfaldar samningaviðræður við Evrópusambandið þar sem látið er reyna á helstu hagsmunamál, þau listuð upp sem einhvers konar skilyrði, komið með það heim til Íslands og kosið um það? Ef þjóðin samþykkir það getum við farið af stað í þetta aðlögunarferli sem Evrópusambandið fjallar um að sé þannig uppbyggt að íslensk stjórnvöld og Evrópusambandið aðlagi í sameiningu lagaramma umsóknar ríkisins meðan á því ferli stendur.