139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Bara stuttlega vegna þess að ég er búinn að koma hér í ræðu áður um þetta mál en mér gafst ekki fyllilega tími til að svara öllum þeim spurningum sem til mín var beint í andsvörum þá. Ég ætla því að reyna að tæpa á einkum einu efnisatriði sem gafst ekki ráðrúm til að svara. Ég vil þó fyrst geta þess vegna umræðna sem fram hafa farið í andsvörum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar við hv. þm. Ásmund Einar Daðason um umræður í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það sem ég sagði í máli mínu var að ég hefði sjálfur ekki orðið fyrir áreiti, þrýstingi eða neinu slíku og ég hefði heldur ekki orðið vitni að slíku gagnvart öðrum, og þess vegna gæti ég ekki staðfest það. Hvað hins vegar aðrir þingmenn hafa orðið fyrir og upplýsa á þingflokksfundum VG er ekki til umræðu eða umfjöllunar hér í þingsal Alþingis. Það er bara þannig að mínu viti.

Ég ætla að nefna aðeins örstutt varðandi þau mál sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði mig um og varðar hin svokölluðu styrkjamál. Það er alveg ljóst að afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kom m.a. fram í samþykkt flokksins á flokksráðsfundi í nóvember sl. þar sem fjallað var um að flokksráðið legðist gegn því að tekið væri við styrkjum sem beinlínis undirbyggju aðild okkar að Evrópusambandinu eða væru tengdir hugsanlegri aðild okkar að því. Það þýddi ekki að við gætum ekki fellt okkur við að einhvers konar styrkur til vissra tiltekinna verkefna kæmi til álita. Rétt er að hafa í huga að þeir styrkir sem við erum að tala um og eru í raun hluti af styrkjakerfi Evrópusambandsins — það er að sjálfsögðu algjörlega undir okkur sjálfum komið hvort við viljum nýta okkur slíkt eða ekki — eru af ólíkum toga. Það eru styrkir sem geta í rauninni fallið undir aðild okkar að EES og Schengen. Það eru hlutir sem geta lotið að því að undirbúa samningaviðræðurnar sjálfar og gera okkur sem best í stakk búin til að verja íslenska hagsmuni eða tala fyrir íslenskum hagsmunum og síðan eru það hlutir sem lúta að þátttöku í einhvers konar stoðkerfissjóðum.

Ég tel að eðlismunur sé á þessum þáttum eða þessum flokkum ef svo má segja. Það sem lýtur beinlínis að EES og Schengen-samningnum er að sjálfsögðu eitthvað sem við erum þegar aðilar að og ég fyrir mitt leyti mundi ekki gera athugasemdir við. Hvað varðar undirbúning samningaviðræðnanna er t.d. sérstaklega fjallað um það í nefndaráliti utanríkismálanefndar að mikilvægt sé að við getum leitað okkur ráðgjafar, m.a. hjá erlendum sérfræðingum, og við þurfum að geta staðið straum af þýðingum og túlkunum af ýmsum toga einfaldlega til að gera samninganefnd okkar og samningavinnu sem best úr garði. Ég tel að slíkir hlutir séu sjálfsagðir. Í umræðu sem fór fram á málefnaþingi Vinstri grænna í október sl. um utanríkis- og Evrópumál varð ég ekki var við neina andstöðu við þá þætti málsins.

Hitt er svo annað mál að það lýtur allt öðrum lögmálum þegar við komum að því sem kalla má þátttöku í stoðkerfissjóðum af ýmsum toga. Þar er vinnulagið það, eftir því sem mér skilst, að ráðherranefnd um Evrópumál mun fjalla sérstaklega um hvert einstakt tilvik í því efni og taka afstöðu til þess. Í ráðherranefnd um Evrópumál eiga sæti fjórir ráðherrar, tveir frá hvorum stjórnarflokki.

Ég tel að þessi umræða hafi verið ágæt og málefnaleg til þessa og mér finnst það jákvætt að menn láti skoðanir sínar í ljós. Rætt hefur verið talsvert um aðildarferlið eða meintu aðlögunina o.s.frv. og ég er þegar búinn að fjalla mikið um það. Ég vil þó segja, af því að hér var sú skoðun látin í ljós að þjóðaratkvæðagreiðsla hér á landi færi ekki fram fyrr en samningur hefði verið fullgiltur í öllum ríkjum Evrópusambandsins, að það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir ef atburðarásin á að vera með þeim hætti. Það er ekki minn skilningur. Ég tel að við tökum sjálf ákvörðun um hvenær við höfum þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðan getur fullgildingarferlið auðvitað farið í gang hinum megin frá og ekki er víst að það gerist á sama tíma í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins. Við getum verið að tala þar um langt tímabil sem það (Forseti hringir.) tekur, þannig að ég er ekki sammála þeirri túlkun sem höfð var uppi í því efni.