139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af þeirri stuttu umræðu sem hefur verið hér um þetta mál í dag má öllum vera ljóst að það er engan veginn ljóst hvert þetta ferli sem við erum í raunverulega er. Hér eru jafnvel þingmenn stjórnarmeirihlutans ósammála um það á hvaða vegferð við erum, hvernig ferlið er, hvort það er sérhannað af Evrópusambandinu og hvort við förum bara inn í það eða hvort þetta er aðlögunarferli hægt og rólega.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru líka ósammála um það hvernig þetta ferli er, við skulum hafa það alveg á hreinu. Það er nefnilega lýsandi fyrir þetta ólukkans mál, svo ég nefni nú ekki stóra drauginn sem er allt um kring, Icesave-málið sem við fjölluðum um fyrr í dag sem tengist að sjálfsögðu beint þessari aðildarumsókn og þeirri niðurstöðu sem er verið að reyna að knýja fram í því máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist eðlilegt að samninganefndin í þessu stóra máli grípi fram fyrir hendur ráðherrans eins og kom fram í máli hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar áðan og sæki um styrki sem ráðherrann hefur, virðist vera, þegar hafnað að sækja um.