139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að það sé ekki ljóst hvert ferlið er. Ég bið bara um að menn hefji sig aðeins upp úr, ég leyfi mér að segja skotgröfum þessarar umræðu og reyni að fara í þetta efnislega og málefnalega eins og þetta hefur að mestu verið. Ég vil alls ekki að við missum þetta niður í eitthvert annað far.

Í mínum huga er alveg ljóst hvert ferlið er. Það er í samræmi við það álit sem meiri hluti utanríkismálanefndar lagði fram og ég tel að það sé unnið eftir því. Ég hef áður lýst sjónarmiðum um að ferlið hefur farið hægar í gang en gera mátti ráð fyrir þegar við fjölluðum um þetta mál hér 2009 en það er alveg farið eftir þeim leikreglum sem við lögðum fram í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Það finnst mér mikilvægt.

Ég tel mig þekkja nokkuð vel þá vinnu sem er í gangi í þessu efni. Ég tel mig þekkja vel meirihlutaálit utanríkismálanefndar frá 2009 og sem formaður í utanríkismálanefnd og í starfshópi utanríkismálanefndar um Evrópumál tel ég mig þekkja nokkuð vel það ferli sem er í gangi núna.

Þingmaðurinn spyr hvort mér finnist eðlilegt að samninganefndin grípi fram fyrir hendur ráðherra. Ég kannast ekki við að samninganefndin hafi gripið fram fyrir hendur ráðherra hvað þessi styrkjamál varðar. Ég lýsti því áðan að þessir styrkir væru í ákveðnum flokkum. Mín afstaða gagnvart þeim er ólík eftir því um hvers konar styrki er að ræða og við höfum rætt það á vettvangi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og verið nokkuð skýr með afstöðu okkar hvað það snertir. Ég tel að það sé þess vegna í réttum og eðlilegum farvegi. Að öðru leyti hefur verið fjallað um þetta mál á vettvangi ráðherranefndar um Evrópumál og innan ríkisstjórnar og það er auðvitað í höndum hennar. Ég vænti þess að hæstv. utanríkisráðherra geti þá skýrt (Forseti hringir.) betur nákvæmlega hvernig þessum málum víkur við.