139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert ómálefnalegt við að ræða þann skýra mun sem kom fram í máli þingmanna um það hvert væri í rauninni þetta ferli sem við værum í, hvort við værum í viðræðum eða aðlögun. Það er bara ekkert ómálefnalegt að velta því hér upp. Það kom fram í ræðum þingmanna og m.a. er greinilegt að sá er hér stendur og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson eru ekki alveg sammála um það. Það er ekkert athugavert við að ræða það.

Ég er sammála hv. þingmanni og þakka honum fyrir mjög góða ræðu, hann fór ágætlega yfir mál sitt og skoðun. Auðvitað höfum við hvert sína skoðunina á þessu og eigum að vera óhrædd við að ræða það í þinginu og annars staðar.

Ég velti áðan upp spurningu um styrkina, þ.e. að samninganefndin hefði sótt um þá. Eins og ég skildi málið áðan og ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar var það gert, ekki beinlínis fram hjá ráðherranum en samt þannig að ráðherrann ætlaði greinilega ekki að sækja um. Því velti ég fyrir mér hvort það væri eðlilegt að gera það.

Svo er vitanlega athyglisvert að heyra að á fleiri stöðum en hjá Framsóknarflokknum er verið að túlka samþykktir og hluti með mismunandi hætti, ég held að það sé alveg ljóst. Það undirstrikar það enn að málið er flókið sem ég held að allir geri sér grein fyrir, það eru mismunandi túlkanir á því hvernig ferlið er og í hvaða farvegi það eigi að vera. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég held að það sé mikilvægt að menn setjist einfaldlega niður og skýri hvað er í gangi. Hvert erum við að fara, hvað er það sem Evrópusambandið ætlast til af okkur og getum við haft áhrif á það með einhverjum hætti? Ég tel ráð að fara að velta við þeim steinum sem þarf að gera vegna þessa.