139. löggjafarþing — 74. fundur,  16. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn talar um að ekki sé ljóst hvert ferlið er og það hefur komið fram í þessari umræðu. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það eru skiptar skoðanir og menn leggja í sjálfu sér út af hlutunum á mismunandi hátt. Hér er talað um hvort við séum í viðræðuferli eða aðlögunarferli.

Ég fór í fyrstu ræðu minni yfir það hvernig ég liti á það og að ég teldi ekki að við værum í neinni sérstakri aðlögun ef skilningurinn á þessari aðlögun er sá sem ég rakti, þ.e. að í því fælist að við þyrftum að laga okkar lög, reglur eða stofnanir að skilmálum Evrópusambandsins fyrir fram. Ég tel svo ekki vera. Ég hef oft, bæði hér og annars staðar, spurt: Hverju hefur verið breytt, hvaða lög hafa verið samþykkt, hvaða reglugerðir hafa verið settar eða breytt eða hvaða stofnanir hafa verið settar á laggirnar sem eru til vitnis um það að við séum að laga okkur að þessu verki Evrópusambandsins fyrir fram? Svarið er alltaf mjög einfalt: Það er ekkert slíkt. (Gripið fram í.) Samt er fullyrt aftur og aftur að við séum í aðlögun. En engum dæmum hefur verið teflt fram þeim fullyrðingum til stuðnings. Ég er enn sannfærður um að þau sjónarmið og þær skoðanir sem ég hef uppi í þessu máli séu réttar. Þingmaðurinn getur hins vegar verið ósammála.

Varðandi það hvar ferlið sé nákvæmlega statt minni ég á að í nefndaráliti utanríkismálanefndar, svo ég vitni eina ferðina enn í það ágæta rit, er m.a. talað um að það sé eðlilegt að hæstv. utanríkisráðherra flytji þinginu skýrslu með reglubundnum hætti um þessi mál. Hæstv. utanríkisráðherra mun flytja þinginu skýrslu um utanríkismál núna í byrjun apríl. Ég veit ekki hvort þar verður kafli um Evrópumálin eða hvort hann hyggst flytja sérstaka skýrslu um það, en mér finnst sjálfsagt mál (Forseti hringir.) að það fari fram umræða um það og það verði gefin skýrsla um gang þessara mála, annaðhvort þá (Forseti hringir.) í tengslum við utanríkismálin almennt eða síðar, þá sérstaklega um Evrópumál.