139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Eins og ég sé málið er ekki ágreiningur um að ríkið fer með forræði yfir auðlindinni og að gjald skuli koma fyrir nýtingu hennar. En það eru enn nokkur útistandandi atriði, það er alveg rétt, og ríkisstjórnin hefur algerlega brugðist í því að gera betur grein fyrir hverjar áherslur hennar eru varðandi þau, t.d. hvort draga eigi enn frekar úr hlutdeild aflamarkshafanna með því að færa meira yfir í potta. Ég harma að ríkisstjórnin skuli hafa horfið frá hinu víðtæka samráði einmitt þegar verið er að útfæra viðkvæm atriði um lengd samninganna, um það hversu stórir pottarnir verða og með hvaða hætti menn formgera þá samninga sem hér eru ræddir. Fyrir mér er það alveg óskiljanlegt að stjórnarandstaðan og hagsmunaaðilar séu ekki höfð með í ráðum þegar samráðið lukkaðist jafn vel og raun bar vitni á síðasta ári. Það er stóra spurningin (Forseti hringir.) sem forsætisráðherra færist undan að svara, hvers vegna málið er sett í pólitíska nefnd núna án nokkurra skilaboða um hvaða áherslur eru hafðar þar til grundvallar.