139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður viðurkennir að það eru margar óútfærðar leiðir, tillögur og útfærslur eftir í þessu stóra máli. Það er því ekki um það að ræða að ríkisstjórnin hlaupist frá ákveðinni samningaleið, eins og sífellt er haldið fram í umræðunni. Það er bara ekki þannig. Allir aðilar voru kallaðir að borðinu og fyrir liggur skýrsla. Verið er að vinna að samningaleið þannig að það eru ýmsar útfærslur eftir, m.a. þær sem hv. þingmaður nefndi. Þær eru ekki svo smáar, þær eru lykilatriði í þessu öllu.

Flokkarnir fara nú yfir málið og reyna ná samstöðu um leiðir. Þegar þær liggja fyrir kemur málið væntanlega inn í þingið. Þá munu þingið og hagsmunaaðilar hafa öll tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að.