139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

stjórnlagaþing.

[10:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það var við því að búast að hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir mundi koma sökinni yfir á aðra. Hvorki ég né Framsóknarflokkurinn eru á harðahlaupum frá nokkru máli. Það er nöturleg staðreynd að Hæstiréttur talaði og bað um að farið yrði að lögum. Það þýðir því ekkert að vísa til fortíðar varðandi þetta mál. Framsóknarflokkurinn hafði það á stefnuskrá sinni að fara í bindandi stjórnlagaþing en við því var ekki orðið eins og hæstv. forsætisráðherra veit.

Það er líka einkennilegt að í svona málum, óþægilegum málum sem snúa að ríkisstjórninni, að forsætisráðherra finnst alveg sjálfsagt að framselja vald sitt og nú liggur það vald hjá nefnd sem skipuð var af forsætisráðherra. Það eru ekki vinnubrögð sem við köllum eftir. Hæstv. forsætisráðherra ber ábyrgð á stjórnlagaþinginu (Forseti hringir.) og ég bið hana vinsamlegast um að svara þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hana.