139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

viðbrögð stjórnvalda við díoxínmengun.

[10:59]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem fram kemur í máli þingmannsins að það er mikilvægt að samhæfa eftirlitsaðila en samstarf hefur verið afar gott milli Umhverfisstofnunar, sóttvarnalæknis og Matvælastofnunar eftir að málið kom upp, t.d. varðandi mælingarnar og borgarafundina sem ég vék að áðan. En mig langar að það komi alveg skýrt fram í þessu efni að ég sendi bréf til umræddra sveitarfélaga með beiðni um að þeir aðilar drægju úr eða stöðvuðu brennsluna eins og nokkurs væri kostur á meðan á mælingum stæði til að koma í veg fyrir að við byggjum við óvissu meðan á mælingunum stendur. Ég hef nú fundað með þessum sveitarfélögum sem eru öll af vilja gerð að gera það sem í þeirra valdi stendur en aðstæðurnar eru mjög mismunandi og eftir því hvernig þau eru í sveit sett. Sum eru eyland eins og Vestmannaeyjar til að mynda. En við munum halda vel utan um málið (Forseti hringir.) og ég tek ábendingu þingmannsins alvarlega um að setja í gang sérstaka verkefnisstjórn.