139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

endurreisn bankakerfisins.

[11:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svör hennar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra komi með þessar upplýsingar inn í þingið vegna þess að þær þrjár spurningar sem ég bar upp varða íslenska ríkið beint. Íslenska ríkið er meirihlutaeigandi í Landsbankanum sem á um helmingsmarkaðshlutdeild á fjármálamarkaði. Landsbankinn er líka með stærstu hlutdeildina í lánum til sjávarútvegsins þannig að það liggur alveg fyrir að ef farið verður mjög harkalega í að fyrna kvótann mun það hafa mjög slæm áhrif á veðstöðu þeirra lána sem talin hafa verið einna best hjá Landsbankanum. (GBS: Icesave.) Og síðan í framhaldinu á Icesave, þó að ég hafi nú ekki ætlað að nefna það orð í dag.

En varðandi reglur FME — það var mikið áfall. Einn banki er búinn að fara í gegnum matið hjá FME og það er MP banki. Hann þurfti í framhaldinu að fara í hlutafjárútboð, auka hlutafé sitt um 4–5 milljarða (Forseti hringir.) en fyrir var það um 8–9 milljarðar. Þarna er um að ræða alveg gífurlegar upphæðir ef sambærileg niðurstaða verður varðandi matið á eignum (Forseti hringir.) sem liggja á bak við eigið fé bankanna.