139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

neysluviðmið.

[11:14]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa utandagskrárumræðu. Ég held að það sé mikilvægt að við fylgjum eftir þeirri vinnu sem lagt hefur verið í í því skyni að búa til einhvers konar neysluviðmið. Það er þó rétt að taka fram að ekki hefur skort viðmið hér og þar í kerfinu. Við notum alla vega viðmið í bönkunum hjá umboðsmanni skuldara, varðandi greiðslumat og hafa stjórnvöld ákveðið að miða við 180 þús. kr. á mánuði. Þá er ég að tala um brúttó, ekki eftir skatta, bæði varðandi örorku og greiðslu til aldraðra þannig að það er í rauninni ekki viðmið sem vantar. Verið er að gera tilraun til þess sem málshefjandi nefndi, þ.e. að reyna að nálgast með betri og skipulegri hætti hver þörfin er í raun og í framhaldi af því sem lá líka í kynningunni á umræðunni, hver staðan er í raun. Þar glímum við við vandamál sem er ástæðan fyrir að ekki kemur upp einhver ein tala og málið er sett í umræðu, aðstæður einstaklinga eru gríðarlega ólíkar á ólíkum landsvæðum og innan höfuðborgarsvæðisins vegna breytilegra þátta. Sérstaklega hefur húsnæðið haft mikil áhrif og svo eru það grundvallaratriði eins og hver neyslan á í raun að vera og hversu há lágmarks- og grunnframfærslan á að vera að mati þjóðarinnar.

Það er ekki ráðherra að ákveða hvort menn eigi að hafa aðgang að öllum sjónvarpsstöðvum, hvort þeir eigi að hafa einkabíl þannig að þeir geti keyrt einir í vinnuna eða slíkt. Það eru hlutir sem vönduð umræða þarf að eiga sér stað um og við þurfum að ákveða hvar öryggisnetið okkar er í þessu samfélagi, hvar við ætlum að tryggja að við setjum þessi mörk.

Það er áhugavert, miðað við þær athugasemdir sem koma varðandi stjórnarskrárbundna skyldu, að stjórnarskráin er ekki ný og að það er fyrst núna sem gerð er atlaga að því að fara að skilgreina neysluviðmið þó að ég ítreki að auðvitað hafi menn skilgreint alls kyns viðmið á hverjum tíma í sambandi við kjaraviðræður og baráttumál öryrkja. En þau eru líka breytileg, þau breytast með nýjum upplýsingum og aðstæðum. Hér varð kúvending við hrunið sem setti menn í mjög ólíka aðstöðu eins og komið hefur fram þannig að kannski erum við ekki í færum til að finna töluna fyrr en við erum búin að átta okkur á því hver útkoman verður og búið verður að hreinsa til og endurstilla samfélagið að fullu.

Spurt er hvort reikna eigi lágmark. Ég hafði orð á því þegar þetta var kynnt að það viðmið sem hér er kallað grunnviðmið er einmitt tilraun til að nálgast lágmarksviðmiðið. Það er ekki kallað lágmarksviðmið vegna þess að það vantar miklu betri umræðu um það. Óskað er eftir því að menn geri athugasemdir, skoði tillögurnar mjög vel og ræði opinskátt um hvað þeir telji vera nauðsynlega þætti til framfærslu. Það verður að segjast eins og er að það veldur svolitlum vonbrigðum að ekki séu nema 20–30 athugasemdir komnar inn á netið en ég vona að fólk verði virkara og einnig að félög komi með ábendingar og tillögur og hjálpi til við að skilgreina þessa hluti. Við höfum ekki sett okkur tímamörk um hvenær þessu eigi að ljúka en þegar við sögðum að athugasemdirnar ættu að birtast í mars var það ávísun á að við vildum gjarnan fá þær sem fyrst þannig að við gætum tekið næsta skref sem verður væntanlega að hafa samráð við hagsmunaaðila eins og Öryrkjabandalag Íslands, Samtök aldraðra og aðra slíka þar sem við getum rætt þessi mál betur, vinnan verður í þá veru.

Það er alltaf umdeilanlegt hvernig leggja á slíkt fram og ég held að það sé afar mikilvægt að átta sig á því þegar við leggjum fram neysluviðmið að þau eru hvergi í heiminum notuð sem beinn framfærslugrunnur. Þau eru viðmið, eins og nafnið bendir til, sem menn geta unnið út frá, þar sem menn geta tekið viðmið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir, þeim útreikningum sem lagðir hafa verið á borðið til að reyna að meta hver staðan er á hverjum tíma, hvar við setjum mörkin, hvort sem er varðandi lægstu laun eða lægstu bætur á hverjum tíma. Ég treysti á að umræðan hér og úti í samfélaginu verði í þá veru að við reynum að sammælast um hvaða þjónustu samfélag okkar á að veita. Ég hef sagt að við erum ríkt samfélag. Við erum þrátt fyrir allt ekki samfélag á vonarvöl og það þýðir að það á ekki að vera ásættanlegt fyrir samfélag eins og okkar að við séum ekki með öryggisnet fyrir þá sem missa einhverra hluta vegna tekjur eða framfærslu tímabundið eða til lengri tíma, net sem tryggir þeim örugga lágmarksframfærslu (Forseti hringir.) eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Það er okkar að skilgreina hver hún er og það er vinnan sem er fram undan.