139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

neysluviðmið.

[11:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Fagna ber þeirri skýrslu sem hæstv. velferðarráðherra, eða velferðarráðherrar, hefur látið vinna. Í þessari ágætu skýrslu ræðum við neysluviðmið en við svörum hvergi þeirri spurningu hvert grunnviðmiðið ætti að vera: Hvað þarf einstaklingur til að geta verið til á sómasamlegan hátt, á mannsæmandi hátt, í íslensku samfélagi? Þegar við höfum komið okkur saman um hver þau grunnviðmið eiga að vera, um lágmarksframfærslu til að lifa mannsæmandi lífi, getum við haldið áfram umræðunni um almenn neysluviðmið.

Frú forseti. Það er engu að síður þarft að gera slíka skýrslu. Hún tekur á mörgu, hún sýnir okkur hver neysla Íslendinga, ólíkra fjölskyldumunstra, hefur verið á undanförnum árum. Hún er vísbending um, eins og hér hefur komið fram, að við þurfum verulega að velta fyrir okkur hvað það er sem við viljum að sé sameiginlegt öllum, á hvað við viljum leggja áherslu, hvort heldur er í almannatryggingakerfinu eða í almennum kjarasamningum, hvað á að vera grunnur að lágmarksviðmiði og lágmarksframfærslu fólks.

Frú forseti. Grunnur að öllu slíku, allri slíkri umræðu, er að hér sé blómlegt atvinnulíf, hér sé atvinna fyrir fólk, hér geti fólk framfleytt sér með því að vinna en ekki eingöngu með því að vera á bótum. Framfærsluviðmiðin eiga aldrei að miða að því. En þau ættu engu að síður, eins og hér hefur komið fram, að vera grunnur að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins samhliða því að vera heildarendurskoðun á almennum kjarasamningum í landinu, miða við það (Forseti hringir.) hvernig fólk á að geta lifað mannsæmandi lífi á Íslandi sem einstaklingar og sem fjölskyldur.