139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

neysluviðmið.

[11:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir að vera kominn fram með þessi neysluviðmið. Þetta er nokkuð sem ég held að við mörg á þingi höfum kallað eftir og beðið eftir. Árið 2006 kom skýrsla frá þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Jóni Sigurðssyni, í framhaldi af þingsályktunartillögu sem var samþykkt á Alþingi um neysluviðmið. Jóhanna Sigurðardóttir hafði lagt þá þingsályktunartillögu fram og talað fyrir henni í þó nokkuð mörg ár. Síðan leið og beið og ekki gerðist mikið en sem betur fer var ákveðið að koma þessu í hendurnar á hæstv. velferðarráðherra og hann er núna búinn að skila af sér þessari skýrslu. Það er gott og ber að þakka það.

Hins vegar er þetta ákveðin byrjun eins og komið hefur fram í umræðunni, sem sagt nýtt upphaf fyrir okkur. Nú þurfum við að velta fyrir okkur hvernig við getum nýtt þessi neysluviðmið í því sem snýr beint að ríkinu. Við þurfum jafnframt að velta því fyrir okkur að að hluta til snertir þetta líka sveitarfélögin. Ein helsta ástæðan fyrir því að ég kallaði sérstaklega eftir þessu er sú að ég tel þetta skipta mjög miklu máli varðandi þá fjárhagslegu endurskipulagningu sem er í gangi núna hjá meginþorra íslenskra heimila. Þar skiptir mjög miklu að vera með góð viðmið til að áætla raungreiðslugetu heimilanna, hvort sem við erum að tala um fólk sem sækist eftir greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara eða leitar eftir úrlausnum hjá fjármálastofnunum sínum.

Ég tel líka mikilvægt að farið verði mjög fljótt í að skoða sérstaklega uppbyggingu atvinnuleysisbótakerfisins. Eins og kemur fram í viðmiðunum og við þekkjum náttúrlega öll (Forseti hringir.) persónulega er mikill munur á því hvort um fjölskyldur er að ræða eða einstaklinga. Það er alls ekki tekið tillit til þess í atvinnuleysisbótakerfinu þar sem við (Forseti hringir.) höfum greitt út um 70 milljarða á síðustu þremur árum.