139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

neysluviðmið.

[11:39]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa góðu umræðu sem og ýmsar athugasemdir og tillögur sem hér hafa komið fram og ábendingar og væntingar auðvitað. Það er þó mikilvægt í upphafi að ítreka það sem hefur komið fram í máli margra að það sem hefur verið kallað dæmigerð viðmið eru fyrst og fremst rauntölur eða það sem einhver kallaði svipmynd. Ég les út úr þeim, kannski öfugt við það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson gerir, að ótrúlega margir búa við töluvert mikla neyslu. Þarna erum við að tala um miðgildi sem þýðir að 50% eru fyrir ofan ef við tölum um 2+2 á heimili sem eru með yfir 617 þús. kr. í raunverulegar nettótekjur. Það segir okkur að mjög stór hópur býr við ansi góð kjör. Þess vegna er eitt af mikilvægustu verkefnunum líka að skoða með hvaða hætti við getum jafnað þessi kjör þannig að við getum útrýmt fátækt, sem hér hefur líka verið nefnt, og búið þannig að fólki að það hafi mannsæmandi framfærslu ef það hefur ekki fulla möguleika á að vera á vinnumarkaði.

Það er mikilvægt að við ræðum hvernig við bregðumst við. Hér hefur komið fram að í þessum dæmigerðu neysluviðmiðum eru samgöngur og húsnæði 55% af neyslunni. Getum við lækkað þennan kostnað? Getum við fært til? Við þurfum að skoða lyfjakostnað og skattana, skoða hvernig kerfið virkar til að ná þessum jöfnuði. Það þarf að fara yfir alla þessa þætti.

Ég get alveg tekið undir að það er mikilvægt að setja fram einhverja tölu, en það er enn þá mikilvægara að það verði einhver sátt um hana, hún verði notuð til einhvers og hafi eitthvert gildi. Eins og ég sagði áðan var gerð tilraun með því að setja 180 þús. sem eitthvert viðmið en því ná ekki þeir sem eru atvinnulausir. Hið sama gildir um námsmenn og fleiri.

Ég gleymdi að segja áðan þegar við vorum að tala um þessa 2+2 sem mega hafa 617 þús., að það séu rauntölurnar miðað við neysluna núna, að þar er náttúrlega reiknað með tveimur fyrirvinnum. 70–80% kvenna eru á vinnumarkaði (Forseti hringir.) þannig að við skulum líta á þetta þannig í þessum dæmum að það eru tvær fyrirvinnur í flestum tilfellum.

Kærar þakkir fyrir umræðuna og ég treysti á að fólk haldi áfram gagnrýninni á umræðuna þannig að við fáum vandaðri niðurstöður.