139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[11:49]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hægt sé að tala um að einhver töf hafi orðið á þessu máli. Það var unnið hratt og örugglega en þó ekki hraðar en óhætt er. Lög á ekki að vinna í flýti, lagabreytingar á ekki að gera í skyndingu heldur að vel athuguðu máli og það var gert í þessu máli eins og öllum öðrum sem koma til umfjöllunar í allsherjarnefnd. Hins vegar kom málið til nefndarinnar á síðasta degi fyrir jól fyrir handvömm innanríkisráðuneytisins, þá dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Við tókum við málinu í nefndinni. Það er ekki hægt að gera þá kröfu til Alþingis sem er löggjafarstofnun Íslendinga að mál séu unnin þar í einhverjum flýti.

Í þessu máli var mikil samstaða og það var eindrægni innan allsherjarnefndar um að klára það. Engu að síður var það unnið með hefðbundnum hætti, með því að óska eftir umsögnum frá hagsmunaaðilum, með því að fá gesti á fund nefndarinnar, með því að leggja fram spurningalista sem fín, innihaldsrík og efnisleg svör fengust við. Þannig á að vinna hlutina á hinu háa Alþingi og ég veit að hv. þingmaður sem hefur lagt mikla áherslu í störfum sínu á vandaða vinnu við undirbúning lagafrumvarpa er mér alveg sammála í þessum efnum.