139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[11:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú erum við komin í 2. umr. um þetta mál um Lögregluskólann. Hún fer fram á forsendum töluverðs starfs í allsherjarnefnd sem ég hef átt þátt í og er ánægður með, bæði mína eigin vinnu þótt ég segi sjálfur frá og viðbrögð og vinnu annarra í þessum efnum. Málið kom nokkuð hráslagalegt inn í þingið á síðasta degi þess í haust með sérkennilegum hætti, nefnilega þeim að átta af níu allsherjarnefndarmönnum fluttu málið á einhvers konar vegum þess sem þá var enn dómsmálaráðherra. En nú hefur það fengið ágæta umfjöllun.

Á nákvæmlega þessum stað í ræðu minni verð ég, forseti, að kvarta yfir því að hæstv. fyrrnefndur ráðherra sem nú er innanríkisráðherra skuli ekki vera viðstaddur umræðuna. Ég minntist líka á það við 1. umr. um málið en þá hafði ráðherrann algjörlega löggiltar og eðlilegar fjarvistir frá þeirri umræðu og varð hvergi hreyft sem ég viðurkenndi í þeirri ræðu. Mér þykir síðra að hann skuli ekki vera hér nú. Málið kom fram við 1. umr. fyrir beiðni hans og að hans ósk og var gengið frá því á sínum tíma um miðjan desember — þarna kemur hann kannski, nei, það er ekki svo — með orðalagi og umbúnaði sem átti rætur að rekja beint til hæstv. ráðherra og ég er undrandi á því að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa tekið eftir því að málið er á dagskrá í dag eða verið látinn vita um það. Ég óska eftir að haft sé samband við hæstv. ráðherra og athugað hvort hann sé nærri húsinu en ef hann er það ekki, ég hygg að þessi umræða verði ekki mjög löng, verði hann látinn vita af því að þess sé óskað að hann verði viðstaddur 3. umr. um málið sem hann er orsökin að.

(Forseti (ÁI): Forseti vill taka fram að þessum boðum verður komið á framfæri við hæstv. innanríkisráðherra.)

Ég þakka fyrir það, forseti.

Ég sagði áðan að málið hefði fengið góða umfjöllun og þó hraða eins og hægt var. Ég vil segja það í tilefni af andsvörum áðan að tafir á upphafi Lögregluskólans á þessu missiri er ekki að rekja til Alþingis. Vegna þess að á þetta var minnst er ástæða til að fara yfir það í nokkrum orðum.

Málinu var dreift í þinginu 18. desember. Það var ekki tími til þess eða ráðrúm að mæla fyrir því vegna þess hvernig það bar að og það geta allir vottað sem að því komu. Málið er síðan tekið á dagskrá þingsins til 1. umr. fyrsta hugsanlega þingdag í janúar, en þinghlé stendur fram yfir miðjan janúar, og þá þegar var ljóst að miðað við eðlilega og hraða meðferð í þinginu mundi það ekki nást fyrir 1. febrúar þannig að sú dagsetning var þá úti fyrir skólann. Nú er stefnt að 1. mars og við skulum vona að það náist en það er sem sagt ekki þinginu, einstökum þingmönnum, nefndinni eða nefndarformanninum að kenna að þetta hefur ekki gengið eftir.

Í raun og veru mætti kannski telja að skóli af þessu tagi gæti hafist án þess að fullkomlega væri ljóst um aðbúnað nemenda á þriðju önn skólans því að um það er að ræða, það eru engar breytingar á fyrstu og annarri önn sem hér er gert ráð fyrir, en það skýrði skólastjórinn ágætlega fyrir nefndinni. Ástæðurnar eru þær að til er hæstaréttardómur sem fjallar ekki síst um kjarasamninga lögreglumanna sem blandast hér inn í vegna þess að þriðju annar nemar eru lögreglumenn á launum við námið eins og nú háttar til og þeim launum og þeim aðstæðum er ráðstafað með kjarasamningum. Þess vegna er varlegt fyrir forráðamenn skólans að fara af stað með nýja önn eða nýjan annahring án þess að þetta sé á tæru. Ég held að það sé rétt hjá þeim en ég harma eins og aðrir þær tafir sem hér hafa orðið. Ef hæstv. innanríkisráðherra hefði verið viðstaddur hefði hann kannski getað upplýst hvernig á þeim stendur. Um það skulu ekki höfð fleiri orð að honum fjarstöddum.

Um þetta mál er kannski ekki miklu meira að segja en framsögumaður þuldi áðan úr nefndaráliti sem við í allsherjarnefnd hjálpuðumst að við að taka saman. Það er auðvitað rétt að minna á að það hagræði sem í þessu felst fyrir lögregluna, Lögregluskólann og ríkið er auðvitað tekið út af öðrum stöðum, útgjöld sem áður vörðuðu þriðju önnina og komu úr almannasjóði eru nú færð á nemendur sjálfa. Það er rétt að muna eftir því, nemendur eru látnir borga það sjálfir, lögreglumennirnir væntanlegu, og síðan auðvitað úr ríkissjóði að lokum því að hluti námslána, kannski ekki mjög stór í þessu tilviki en alltaf einhver, verður að lokum að styrk eins og eðlilegt er í okkar kerfi og er einn af kostum þess sem við viljum halda. Það er rétt að menn muni það í fögnuði sínum yfir þessu hagræði sem kallað er að svona er þetta.

Það kom í ljós í nefndinni að það er líka nokkuð óljóst hvernig kjör lögreglunemanna, lögreglumannanna væntanlegu, verða á þriðju önn, þeirri sem nú á að fjármagna með námslánum en ekki með launum, vegna þess að eins og fulltrúar Lánasjóðs íslenskra námsmanna skýrðu fyrir okkur eru tekjureglur lánasjóðsins þannig að ákveðinn hluti tekna dregst frá námslánum. Eins og hér háttar til koma þær þegar þær eru reiknaðar út miðað við aðra önn sem hér er starfsönnin og getur ákveðinn hluti þeirra dregist frá námslánunum á þriðju önn. Það er í raun og veru óskýrt enn hvernig á að haga þessu en eins og menn vita kannski eru námslán ekki afar há í krónum og töluvert átak fyrir fólk, a.m.k. það sem er í fullu starfi, að skipta um vettvang og fara á námslán. Þarna er um það að ræða að þeir sem hafa haft tekjur af lögreglunemastörfum sínum sem hluti reglulegs lögregluliðs á annarri önn þurfa svo að taka námslán á þriðju önn.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna, ég biðst afsökunar á því að telja bara upp hin neikvæðu atriði því að það eru auðvitað jákvæðir punktar í þessu líka eins og menn sjá þegar þeir lesa nefndarálitið, er að þessi skipan fækkar hugsanlegum lögreglumönnum í landinu. Samkvæmt reglugerð þeirri sem nú gildir um lögreglulögin að þessu leyti verða nemarnir að lögreglumönnum með sérstöku heiti við upphaf starfsannarinnar og síðan er heimilt að kalla þá inn á þriðju önn ef þurfa þykir. Menn þurfa bara að gera sér grein fyrir því að nú verður það ekki lengur hægt því að það er ekki sæmandi fyrir ríkið, og sennilega ekki hægt heldur að lögum eða kjarasamningum, að kalla fólk inn til starfa í lögregluliði á námslánum.

Forseti. Ég held að að öllu samanlögðu hafi allsherjarnefnd staðið sig vel í þessu máli, unnið þetta mál eins hratt og hægt var með því að leita umsagna, lesa málið, kynna sér það sem í kringum það er. Það er gott að við gerðum það því að málinu er auðvitað ekki lokið. Þetta er líklega og vonandi liður í breytingum á Lögregluskólanum eins og fram kemur síðast í nefndarálitinu þar sem segir, með leyfi forseta, að fyrir nefndinni hafi komið fram „þau sjónarmið hjá Landssambandi lögreglumanna að fagleg rök séu að baki þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Miklar kröfur séu gerðar til starfa lögreglu og því mikilvægt að efla lögreglunámið enn frekar og að færa það á æðra skólastig (háskólastig). Óhjákvæmilegur liður í þeirri vegferð sé að bóknámið verði ólaunað líkt og gildir um allt annað nám, hvort sem um er að ræða nám á akademísku háskólastigi eða nám á fagháskólastigi. Þá verði með breytingunum unnt að auka sveigjanleika til breytinga í náminu og tekur nefndin undir að það er til bóta.“

Að þessum orðum sögðum er rétt að nefna hér að það réð ekki síst ákvörðun minni um að vera með, skrifa undir þetta nefndarálit og styðja þetta frumvarp, að Landssamband lögreglumanna leggur eindregið til að það verði samþykkt sem fyrst.