139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þessa tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Ég tel mjög mikilvægt að við höfum áætlun um þetta þannig að við vitum hvert við erum að fara og þá er líka mikilvægt að við höfum raunhæfar áætlanir.

Mig langar í þessu stutta andsvari að spyrja út í 0,7% markið sem ég tek eftir að er enn á dagskrá og er sett hér fram sem formlegt markmið ríkisstjórnarinnar. Ég tek líka eftir því að við erum dálítið langt frá þessu markmiði og jafnvel á mesta uppgangstímanum náðum við aldrei að komast nálægt því. Við fórum hæst í 0,36% sem voru þó tæplega 4,3 milljarðar.

Nú sé ég að stefnan er að vera komin upp í 0,23% árið 2014 en eigum samkvæmt þessu að ætla okkur 0,7% árið 2021 þannig að það er ansi brött hækkun eftir gildistíma þessarar áætlunar. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji þetta raunhæft. Þarna verður tvenns konar kapphlaup, bæði að hækka framlögin í prósentum og svo vonum við að kakan stækki hér þannig að þetta verði alltaf hærri og hærri fjárframlög líka í krónum talið. Af gamalli reynslu veit ég að þessu takmarki er erfitt að ná. Þá er spurningin: Jú, við verðum að hafa markmið en hversu raunhæf eru þau?

Síðan langaði mig líka að spyrja hæstv. ráðherra um neyðaraðstoð og framlög til þeirra mála, hvort það sé þannig að þetta fari allt í gegnum potta til félagasamtaka. (Forseti hringir.) Hvert er hlutfallið í því að við sendum sjálf til einstakra verkefna og hver er umsýslukostnaðurinn, hve mikið fer (Forseti hringir.) beint í verkefnin og hve mikið fer til þessara félagasamtaka og stofnana?