139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að því er varðar síðari spurninguna skal ég svara því nákvæmar í lokaræðu minni í lok umræðunnar. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um að það er ansi hátt hlutfall sem fer í gegnum frjáls félagasamtök þegar um neyðaraðstoð er að ræða. Satt að segja, þegar ég fór að kynna mér þau mál, gladdi það mig að sjá að það hafði heldur farið hækkandi, því að ég hef í gegnum árin verið þeirrar skoðunar að það eigi að setja meira af peningum í gegnum þau. Eins og hv. þingmaður veit kannski eyddi ég mörgum árum sem sjálfboðaliði við að byggja upp slík samtök þar sem kostnaðurinn var enginn í umsýslunni. Allt kapp er lagt á að sá kostnaður verði sem minnstur og er rétt að taka það líka fram að það er farið eftir þeim reglum sem Ríkisendurskoðun setur auk þess sem farið er eftir alþjóðlegum stöðlum í þessum efnum.

Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns finnst mér fyllilega réttmætt að menn velti því fyrir sér hvort þarna sé um að ræða raunhæft markmið. Ég held að svo sé. Þá reikna ég með að Íslendingar sigli út úr kreppunni og við verðum um miðbik þessa áratugar komnir á nokkuð góðan skrið og miðað við það, sem ég held að þverpólitísk sátt sé um, að þá verði vilji til að setja fé til þessa. Þá horfi ég líka til þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þingmaður starfaði fyrir sem ráðgjafi eða aðstoðarmaður á sínum tíma. Hún setti sér markmið og hún tók ansi brattan skrið upp á við. Ég held að það hafi verið um fjögurra ára skeið sem stórjókst skerfurinn sem settur var af ríkisins hálfu til þessa.

Ég dvaldi einmitt töluvert við þá þróun á sínum tíma og ég velti því fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri háleitt markmið en það væri ekki út í hött að setja það fram miðað (Forseti hringir.) við það að þróunin verði eins og ég alla vega vona í efnahagsmálum þjóðarinnar.