139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:30]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er gott að heyra að þetta sé raunhæft markmið. Ég fetti í sjálfu sér ekki fingur út í markmiðið en velti fyrir mér hvort hægt sé að ná því og hvort við munum hafa sem fallega framtíðarsýn eða hvort þetta komist einhvern tímann á laggirnar. Það skiptir líka máli hvernig þessum fjármunum er varið. Hæstv. ráðherra benti réttilega á að í tíð fyrri ríkisstjórnar hafi verið tekin brött skref. Ég hafði oft efasemdir um að við værum til þess bær að ráðstafa þessum peningum með sem bestum hætti vegna smæðar okkar. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að efla Þróunarsamvinnustofnun og þau verkefni sem hún vinnur að þannig að við getum flutt út þekkingu okkar og tækni og látið okkar fyrirtæki sjálf og atvinnulíf líka taka þátt í þessari uppbyggingu. Það er svo og svo mikið sem við getum gert þannig að þetta þarf að sjálfsögðu að vera í bland.

Þá komum við að síðari spurningu minni og hún varðar Þróunarsamvinnustofnunina. Það hefur verið tog í gegnum tíðina á milli ráðuneytisins og stofnunarinnar um hvernig eigi að fara með þessi verkefni, hvernig þau skuli skiptast. Ég held að það sé komið í ágætisfarveg núna eftir að það hafa verið skiptar skoðanir. Ég minnist þess þegar við breyttum lögum um Þróunarsamvinnustofnun, (Gripið fram í.) m.a. um stjórnarskipan, og hefur t.d. sú breyting orðið á skipan stjórnar Þróunarsamvinnustofnunar að þar sitja ekki lengur alþingismenn eins og tíðkaðist um árabil. Og þá spyr ég: Hvernig er með eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart öllum þeim fjármunum sem verið er að veita til þessara mála? Það má margt segja um hvort betra sé að hafa sérfræðinga í stjórninni eða alþingismenn. Hvernig verður og er eftirlit Alþingis (Forseti hringir.) með þessum fjármunum, hvernig er þeim ráðstafað til einstakra verkefna? Jafnvel þótt alþingismenn séu komnir (Forseti hringir.) úr stjórninni minnkar ekki þörfin á að Alþingi hafi burði til að sinna eftirlitshlutverki sínu.