139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Að því er eftirlit af þingsins hálfu varðar er í fyrsta lagi hægt að benda á utanríkismálanefnd sem hefur öll tækifæri til að kalla eftir upplýsingum og fylgjast með. Umræða og umfjöllun í nefndinni er partur af því. Auk þess kýs Alþingi sjö manns í svokallaða Þróunarsamvinnunefnd sem hefur sinnt sínu eftirlitshlutverki giska bærilega og verið ódeig við að beina fyrirspurnum og leiðbeiningum til ráðherrans um þetta mál.

Hv. þingmaður spurði mig áðan hversu mikið við legðum til í gegnum þessa alþjóðlegu neyðar- og mannúðaraðstoð og um hlutföllin gagnvart frjálsum félagasamtökum. Árið 2009 námu framlög til neyðar- og mannúðaraðstoðar samtals 332 millj. kr. og þar af runnu 111 millj. kr. til verkefna félagasamtaka. Í fyrra hafði þetta hlutfall aukist nokkuð, þá námu framlögin 278 millj. kr. en 126 millj. kr. fóru til verkefna íslenskra félagasamtaka. Við erum með ýmsa samninga sem við höfum undirritað, t.d. við Rauða krossinn, og þegar upp kemur erfið staða á alþjóðavettvangi sem þarf að bregðast hratt við fer fjárstuðningur okkar oftar en ekki í gegnum t.d. Rauða krossinn og stundum sá fjárstuðningur sem markaður er sérstaklega af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar, þ.e. með sérstökum ákvörðunum hennar og þings.