139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mér sýnist þessi tillaga til þingsályktunar hafa verið mjög vel undirbúin og fyrir það ber að þakka. Nokkur atriði standa upp úr í tillögunni. Því eru gerð ágæt skil hver helsti grunnurinn er að okkar alþjóðlegu þróunarsamvinnu en það sem stendur kannski upp úr, er helst markvert og tilefni til umræðu er þessi áætlun um að færa okkur í hóp með Norðurlöndunum þegar kemur að hlutfallslegu framlagi okkar til þróunarsamvinnu. Um það hversu raunhæft þetta markmið er verð ég að segja að ég tel að það sé að öllum líkindum ágætlega raunhæft að ætla sér að gera þetta á u.þ.b. tíu árum, í litlum skrefum. Líklega höfum við verið helst til óraunhæf á undanförnum árum og kannski hljóp okkur kapp í kinn í tengslum við hugmyndir okkar um að komast inn í stjórn öryggisráðsins og vildum sýna þeim sem við vildum sækja stuðning til að við hefðum sett okkur mjög metnaðarfull markmið að þessu leyti. Þau gengu ekki eftir nema rétt framan af og nú hefur þurft að vinda ofan af þeim. Við erum komin talsvert stórt skref til baka en hér er þó a.m.k. lögð fram tíu ára áætlun um hvernig við getum náð þessu markmiði sem við höfum svo lengi haft og ágætur stuðningur hefur verið við á þinginu.

Ég veit ekki hvort það er nauðsynlegt að hnýta því síðan við að verði hagvöxtur á næstu árum meiri skulum við ganga enn hraðar fram í þessu. Við skulum sjá til, væntanlega verður tekin ákvörðun um það á hverju fjárlagaári en þetta er eitt af þeim atriðum sem standa upp úr og ég lýsi því yfir að það slær mig ágætlega með því að leggja upp með tíu ára áætlun um þetta markmið.

Í öðru lagi er ljóst að hér er verið að styrkja enn frekar samstarfið við frjáls félagasamtök. Ráðherra vék að því í andsvari hvert umfang þess samstarfs hefur verið undanfarin ár og er greinilegt að ætlunin er að auka það. Við sjáum í töflu á bls. 2 í tillögunni að frjálsu félagasamtökin munu ár fyrir ár taka til sín vaxandi sneið af heildarframlaginu, frá 6% upp í 8% á árunum 2012–2014. Það er nauðsynlegt að velta því fyrir sér sem fram kom í fyrirspurn frá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur hvort óeðlilega hátt hlutfall af slíku framlagi fari í umsýslu og utanumhald og að hve miklu leyti framlagið skili sér beint til þeirra sem er verið að reyna að ná til. Ég er síst á móti því að samstarf við félagasamtök sé í traustum farvegi og mér finnst skynsamlegt að leggja upp með áætlun um það til framtíðar enda tek ég eftir því að umsagnaraðilar, bæði Þróunarsamvinnunefndin og formaður samstarfsráðs um alþjóðlega þróunarsamvinnu, taka með jákvæðum hætti í þennan lið áætlunarinnar.

Mig langar síðan til að segja almennt um þennan málaflokk að hér hefur verið útlistað mjög nákvæmlega hvaða helstu áherslur stjórnvöld vilja leggja í sinni alþjóðlegu þróunarsamvinnu. Ráðherrann hefur rakið það ágætlega og það er síðan útlistað enn frekar í þingsályktunartillögunni í hvaða málaflokkum við viljum helst beita okkur, en ég get ekki varist þeirri hugsun að við séum þegar allt kemur til alls með þó nokkuð stærri áform en við höfum fjármuni til að standa undir. Við erum að tala um að verja u.þ.b. 3 milljörðum á ári í alla þessa málaflokka og þegar maður les alla málaflokkana sem til stendur að styðja við og skoðar það að við verjum annars vegar fjármunum til Þróunarsamvinnustofnunarinnar og síðan í gegnum utanríkisráðuneytið til allra þessara ólíku málaflokka hefur það verið undanfarin ár og er enn niðurstaða mín að líklega dreifum við framlögunum of víða, smyrjum þeim of þunnt út.

Þá kemur aftur að því eftirliti sem við á þinginu getum haft. Ég hef verið talsmaður þess í utanríkismálanefnd að við á þinginu gæfum þessum málaflokki meira vægi og meiri eftirfylgni, t.d. með vettvangsheimsóknum, fylgdum starfinu eftir og kynntum okkur það nánar með því að senda einn eða tvo þingmenn úr utanríkismálanefnd sem gæfu síðan nefndinni og eftir atvikum þinginu skýrslu um ferðir sínar þannig að við værum með virkt alvörueftirlit. Auðvitað er rétt að þingið kýs líka sína fulltrúa en við þekkjum fordæmi þess annars staðar á Norðurlöndunum að þingin hafa gert heildarúttektir á þeim árangri sem viðkomandi ríki ná í þróunarsamvinnu sinni. Það er það sem við eigum að velta fyrir okkur fyrst og fremst á þinginu, ekki einungis hvaða áform stjórnvöld hafa um að styrkja einstaka málaflokka eða í einstaka löndum heldur hvaða árangri náum við með þeim framlögum sem við veitum. Þar tel ég að við í utanríkismálanefnd sem og þingið almennt þurfi að beina sjónum sínum að í ríkara mæli þannig að við séum ekki alltaf að ræða hlutföllin af landsframleiðslu eða hversu mörgum verkefnum á vegum alþjóðastofnana við ætlum að sinna heldur einfaldlega spurninguna: Hvað kemur á endanum út úr þessu?

Mig grunar að ef við gefum því betri gaum hvað kemur út úr þeim verkefnum sem við höfum fram til þessa sinnt og styðjum við að öðru leyti verði niðurstaðan sú að það væri farsælla fyrir okkur að vera á færri stöðum með stærri framlög og hafa þannig betri tök á því að fylgjast með því sem er að gerast, hvernig framvinda mála er og hvaða árangur næst til að réttlæta áframhaldandi vöxt til þessa málaflokks. Þegar við stórjukum framlögin í aðdraganda þess að við sóttumst eftir sæti í öryggisráðinu fannst mér þingið algerlega tapa sjónum á því hvort fjármunum væri varið til mála þar sem næðist einhver árangur í samræmi við þær áætlanir sem við vorum með. Listarnir yfir málin sem við studdum lengdust bara. Hinir nýju fjármunir fóru ekki í auknum mæli í þau mál sem góð reynsla hafði verið af. Auðvitað var það að einhverju leyti tilfellið en að stórum hluta til urðu listarnir bara lengri þannig að hinir nýju fjármunir fóru í enn fleiri verkefni. Þeim mun fleiri verkefni sem við skiptum okkur af, þeim mun erfiðara verður fyrir okkur að hafa einhverja heildaryfirsýn yfir það hvort við náum þeim háleitu og metnaðarfullu markmiðum sem þingsályktunartillagan sannarlega geymir. Þau eru vissulega ágæt og mjög metnaðarfull og þetta er skýrlega sett fram. Síðan þurfum við að fylgja þessum metnaðarfullum markmiðum eftir með árangursmælingum.