139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma stuttlega inn í þessa umræðu og eins og aðrir þakka fyrir það þingmál sem hér er lagt fram, tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands árin 2011–2014, og framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra með því.

Ég get tekið undir það sem hefur þegar komið fram að þetta sé vel unnin áætlun. Það liggur bersýnilega mikil vinna og hugsun á bak við það sem hér er sett fram og það er afskaplega skipulega gert.

Ég held að hvað varðar framlögin af Íslands hálfu til þróunaraðstoðar almennt, þróunarsamvinnu, eigi Ísland að vera í hópi þeirra ríkja sem leggja hvað mest af mörkum til þeirra mála. Það á að vera markmið okkar og metnaður. Ástæðan er einfaldlega sú að Ísland er rík þjóð í heimi þjóðanna. Þrátt fyrir að við glímum nú um stundir við efnahagslega erfiðleika sem að sjálfsögðu setja mark sitt á það sem við höfum til ráðstöfunar í hina ýmsu málaflokka, þróunarmálin eins og önnur, á það eftir sem áður að vera markmið okkar að vera í hópi þeirra þjóða sem hvað mest leggja af mörkum í þessu samhengi.

Hér hefur aðeins verið vikið að því hvort markmiðið, sem er reyndar ekki nýtt af nálinni eins og við þekkjum, um 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu, sé raunhæft á þeim tíma sem hér er lagt upp með. Ég ætla ekki að vera ósammála þeim sem hafa sagt að það sé raunsætt markmið en ég vil engu að síður láta það koma fram af minni hálfu að ég hefði gjarnan viljað sjá þetta gerast hraðar og sjá meiri metnað í þeirri aukningu en hér er lagt upp með. Þar með er ekki sagt að það kunni ekki að vera raunsætt að horfa á þetta þessum augum.

Ég vil líka vekja athygli á því, og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir var aðeins inni á því, að stökkið sem þessi áætlun gerir ráð fyrir að verði tekið frá 2014 og þar til þessu tíu ára tímabili er lokið, þ.e. frá 0,24% upp í 0,7 er býsna stórt á þeim tíma. Ég tel að við ættum að skoða það sérstaklega á vettvangi utanríkismálanefndar hvort áfangaskiptin ættu að vera með eitthvað aðeins öðrum hætti og kannski jafnari eða, sem einnig kæmi til álita að mínu viti, að vera með eitthvert milliuppgjör eða milliáfanga á árabilinu frá 2014–2021, að setja einhvern millitíma ef svo má segja ef menn ganga út frá því að 0,7% markinu yrði náð árið 2021, vera með eitthvert millistig þar á milli. Þetta er eitthvað sem verður að sjálfsögðu skoðað á vettvangi utanríkismálanefndar, bæði út frá því hvað er framkvæmanlegt, hvað er skynsamlegt og hvaða svigrúm við höfum.

Síðan vil ég nota tækifærið og lýsa mig algerlega sammála því að það er mikilvægt að af hálfu löggjafarvaldsins og fjárveitingavaldsins sé eftirlit með þeim miklu fjármunum sem fara í þennan málaflokk. Það er auðvitað skylda. Það ætti bæði að vera á vettvangi utanríkismálanefndar, sem má segja að hafi faglega þennan málaflokk á sinni könnu, og einnig og ekkert síður fjárlaganefndar, sem á að hafa eftirlit með meðferð fjárveitinga af hálfu Alþingis, að skoða reglubundið í hvað þessir fjármunir nýtast, hvernig þeir koma þeim til góða sem markmiðið er að njóti þeirra. Þetta er hægt að gera, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson kom inn á, með vettvangsheimsóknum eða skýrslugjöf af einhverju tagi og ég tel sjálfsagt að við skoðum það í samstarfi við annað alþjóðastarf á vegum utanríkismálanefndar.

Ég vil líka minna á að á sérstökum vinnufundum utanríkismálanefndar í ágúst á síðasta ári tókum við sérstaklega fyrir þróunarsamvinnumálin, þ.e. málefni Þróunarsamvinnustofnunar. Við heimsóttum þá stofnun, kynntum okkur starfsemina þar og þau verkefni sem unnin eru á þeim vettvangi en eins og hér kemur fram og við þekkjum er það auðvitað ekki nema hluti af þróunarsamvinnunni sem Ísland veitir sem fer fram á vegum Þróunarsamvinnustofnunar. Umtalsverður hluti og raunar meiri hluti í fjármunum talið fer í gegnum aðrar leiðslur, þ.e. í gegnum utanríkisráðuneytið. Það er sjálfsagt umræðuefni hvernig við skiptum því og hvort Þróunarsamvinnustofnun á að vera með stærri hluta af þeirri köku, og sömuleiðis það sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir var inni á í andsvari sínu áðan um skipulag Þróunarsamvinnustofnunar, skipan Þróunarsamvinnuráðs og samstarfsnefndar. Það er líka hluti sem ég tel að við ættum að fara yfir á vettvangi utanríkismálanefndar vegna þess að þetta var nokkuð umdeilt á sínum tíma þegar málið var til umfjöllunar í utanríkismálanefnd vegna breytinga á lögunum. Þar var, hygg ég, komist að ákveðinni málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða um það fyrirkomulag. Ég tel fulla ástæðu til að fara yfir hvort það hafi gefist vel, það kann vel að vera að svo, sé, eða hvort menn vilja gera atlögu að einhvers konar breytingum sem gætu betur mætt þeim markmiðum sem við stefnum að. En þegar upp er staðið skiptir það einmitt mestu máli hver eru markmiðin með þeirri stefnumótun sem við setjum okkur, hvernig náum við þeim markmiðum og erum við að gera það? Þetta þarf að horfa á í samhengi.

Ég vil líka leyfa mér að segja í lokin, frú forseti, að ég tel að kjarninn í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, megináherslumálin sem eru talin upp á bls. 1 í þingsályktunartillögunni í stafliðum a–c, að þar sé afskaplega vel að orði komist og það rammi inn þau meginsjónarmið sem við eigum að hafa í okkar þróunarsamvinnustarfi og ég er afskaplega sáttur við það.

Ég vil síðan leggja áherslu á það að við munum að sjálfsögðu vinna þetta með hefðbundnum hætti í utanríkismálanefnd, senda málið til umsagnar til fjölmargra aðila, fá viðbrögð við því sem hér er lagt fram og freista þess síðan að vinna þetta vel og faglega á næstu vikum.