139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[12:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Síðastur manna mun ég mæla gegn því að hv. utanríkismálanefnd taki til umræðu möguleikana á því að flýta því að ná þessum markmiðum. Ég verð að segja eins og er að mér hefur stundum fundist á skorta á síðustu árum þegar menn hafa verið að ráðast ansi harkalega á þennan málaflokk að það sé stuðningur í þinginu við a.m.k. að meta afleiðingar þess að hafa farið svona hart í þennan niðurskurð. Ég tel að við höfum ákveðnum siðferðilegum skyldum að gegna og það er satt að segja þannig að það er ekki hægt að ganga lengra í niðurskurði en við höfum gert. Það er þess vegna gleðiefni fyrir mig ef hv. þingmaður telur að það séu föng á því að þingið velti þessu fyrir sér. Ég verð hins vegar að segja honum alveg ærlega að hér er um að ræða niðurstöðu sem ekki bara ég einn hef komið að heldur fleiri og menn telja í samræðum milli ráðuneyta að þetta sé raunhæf áætlun.

Ég taldi satt að segja þegar ég lagði þetta mál fyrir þingið að líklega kæmi gagnrýni á hversu bratt við munum þurfa að auka framlög okkar til að ná þessu marki. Það gleður mig því mjög að heyra að það er sammæli um þetta í þinginu. Eins og ég sagði áðan kom mér það kannski ekki á óvart en það var eigi að síður gleðiefni fyrir mig að heyra hversu sterkar og jákvæðar undirtektir formanns Sjálfstæðisflokksins voru í þessum efnum. Sömuleiðis hversu raunhæft hann taldi það vera að ná þessu markmiði á tíu árum. Ég ímynda mér þá að utanríkismálanefnd muni með því að tala við sérfræðinga vega það og meta hvort raunhæft sé og jafnvel rétt að slá fastar undir nára. Síðastur manna skal ég vera til að mæla því í mót. Ég tel að við höfum ákveðna siðferðilega ábyrgð í þessum efnum, við erum rík þjóð (Forseti hringir.) og það stappar ansi nærri því að við höfum ekki alveg staðið undir þeirri ábyrgð.