139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

upplýsingalög.

381. mál
[13:49]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í 8. gr. er mjög ítarlega farið yfir hvað teljist vera vinnugögn. Það er í mörgum liðum. Ég veit að þetta var ítarlega rætt í nefndinni þar sem það er vissulega vandmeðfarið.

Ég held að skilgreiningin á þessu sé nokkuð skýr: Ef farið er með gögn út fyrir ráðuneytið eða á milli ráðuneyta eiga vinnugögnin að vera opin og algerlega skýrt hvernig og við hvaða aðstæður eigi að afhenda þau og hvenær það komi til álita. Þarna var stuðst mjög við framkvæmd laganna en ekki síður við úrskurð nefndar um upplýsingamál. Ég er viss um að þetta verður sú grein í frumvarpinu sem verður hvað best farið yfir vegna þess að það er eðlilegt að þetta sé sem opnast. Þó verður alltaf að hafa ákveðin takmörk á því þegar um er að ræða gögn á vinnslustigi sem geta verið með þeim hætti að ekki sé rétt og eðlilegt að þau séu afhent almenningi.

Í mínum huga er ekki verið að þrengja aðgang að gögnum en ef það kemur í ljós við yfirferð nefndarinnar tel ég að það þurfi að skoða. Ég held að fyrst og fremst sé verið að setja í lögbókina framkvæmd á hvað séu vinnugögn, skilgreina þau betur þannig að það sé aðgengilegt fyrir alla aðila.