139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

upplýsingalög.

381. mál
[13:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er efnislega alveg sammála hv. fyrirspyrjanda. Það er nauðsynlegt fyrir alla aðila að hafa þessar reglur sem skýrastar í lögum þannig að ekki sé um þær deilt. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að iðulega er um það deilt hvað teljist til vinnugagna.

Að meginuppistöðu til, eins og ég sagði, er þetta óbreytt frá gildandi lögum og verið að festa þar inn það sem framkvæmt hefur verið meðal annars vegna úrskurða upplýsinganefndarinnar.

Settar eru inn fjórar nýjar reglur um hvað teljist til vinnugagna. Ég held að þær séu ekki útvíkkun á því sem tíðkast hefur. Þar er um að ræða gögn sem berast milli stjórnvalda þegar eitt stjórnvald sinnir ritarastörfum eða sambærilegum störfum og síðan ef um er að ræða gögn sem unnin eru af nefndum eða starfshópum, sem stjórnvöld hafa formlega sett á fót, og í þriðja lagi gögn sem send eru á milli nefnda eða starfshópa, sem stjórnvöld hafa sett á fót með formlegri ákvörðun og gegna fastmótuðu hlutverki, og annarra stjórnvalda þegar starfsmenn þeirra eiga þar sæti. Í fjórða lagi er um að ræða gögn vegna ráðgjafar sem ráðuneytið aflar hjá öðrum ráðuneytum eða hjá stjórnvöldum sem heyra undir yfirstjórn þess.

Ég held að fyrst og fremst sé verið að festa í lög það sem ekki hefur verið þar áður. En eins og ég segi mun nefndin örugglega fara nákvæmlega yfir þessa grein frumvarpsins.