139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[14:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi þeirra miklu ávirðinga sem hv. nefnd kemst að í þessu máli og eflaust með réttu tel ég það vera skyldu nefndarinnar að kanna hvað brottfallið er mikið í þessum ákveðna skóla og hvað það er í öðrum sambærilegum skólum.

Síðan vildi ég skora á hv. nefnd sem hv. þingmaður veitir formennsku að kanna hvað stúdentsprófið kostar íslenska skattgreiðendur til enda, með brottfalli og öllu saman, þannig að við vitum um hvað við erum að tala.

Svo vil ég gjarnan að hv. nefnd skoði sömuleiðis opinberu skólana, hvort þeir hafi farið fram úr fjárlögum, hvað stúdentspróf þeirra kostar og hvort þeir standi við samninga sem gerðir eru og annað slíkt. Ef svo reynist vera, þá ætti með sömu rökum að hætta opinberum rekstri skóla.