139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir niðurstöður hans. Ég vil draga fram tölfræði varðandi brottfallið þó að nefndin sjálf hafi ekki aflað þeirra upplýsinga. Fram kemur í gögnum sem menntamálaráðuneytið lét vinna og ég nefndi í máli mínu að brottfallið fyrir námsárin 2009 og 2010 hafi verið 5,6% sem er mun minna en annarra framhaldsskóla í landinu. Það er rétt og skylt að það komi fram. Ekki hafa fengist upplýsingar um brottfall síðustu ára, segir einnig í þeirri skýrslu.

Hvaða ályktanir við getum dregið af þessu? Það bendir til þess að þessi tilraun sé gagnleg hvað þetta varðar. Hins vegar er nemendafjöldinn auðvitað ekki stór í þessum skóla (PHB: Skiptir það máli?) og við þurfum að skoða þetta í samhengi. Það skiptir vissulega máli ef við ætlum að leggja mat á þá fjármuni sem sparast fyrir ríkissjóð á hverjum tíma.

Þetta er risastórt mál sem ég tel að menntamálanefnd og menntamálayfirvöld í landinu þurfi að skoða sérstaklega. Í Sóknaráætlun 20/20 er að finna mjög metnaðarfulla markmiðslýsingu um að ná brottfallinu niður í 10%. Ef við ætlum að ná því marki verða allir aðilar sem hér eru inni, kjörnir fulltrúar úr öllum flokkum og ráðuneyti menntamála að spýta í lófana, bretta upp ermar og koma með raunhæfa aðgerðaáætlun um hvernig við getum náð brottfalli í framhaldsskólum á par við það sem þekkist í öðrum löndum.