139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir góða og málefnalega ræðu og yfirferð yfir álit minni hluta menntamálanefndar í þessu dapurlega máli.

Mig langar sérstaklega að spyrja um afstöðu þingmannsins til þeirra arðgreiðslna sem eru meðal þeirra atriða sem helst eru gagnrýnd í skýrslu Ríkisendurskoðunar og birtast okkur með þeim hætti að 95% af þeim rekstrarafgangi sem kemur fram í bókum félagsins, og er allur til kominn eins og við vitum út af ofgreiðslum úr ríkissjóði, renna beint í vasa eigenda félagsins. Er hv. þingmaður fylgjandi því að í samningum við einkaskóla sé opið fyrir það að svo sé búið um hnúta að eigendur skólanna geti rekið þá í hreinu hagnaðarskyni eins og þarna birtist okkur?

Það er síðan réttur skilningur þingmannsins á áliti meiri hluta menntamálanefndar að við teljum full rök fyrir því að starfsemi af þessu tagi og starfsemi þessa skóla eigi rétt á sér ef aðrir aðilar kæmu að rekstrinum en þeir sem hafa sýnt af sér þá hegðun í fjármálaumsýslu sem birtist okkur í þessari skýrslu.