139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[15:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór inn á það að Ríkisendurskoðun teldi þessar arðgreiðslur ekki brjóta lög. Hv. þm. Skúli Helgason spyr mig hvort ég sé fylgjandi því að slíkar arðgreiðslur eigi sér stað. Ég lít þannig á að ákveði maður að setja á laggirnar einkaskóla og fara í samstarf við ríkið um nemendaígildi eins og aðrir skólar fá, vegna þess að nemendaígildi fylgir nemandanum til þess skóla sem hann óskar að fara í, og uppfylli þær kröfur sem hann setur sér í upphafi og nái markmiðum sínum, að því gefnu að starfsfólk og kennsluhættir séu innan ramma þess þjónustusamnings sem gerður er við skólann af hálfu ráðuneytisins og það sé afgangur af rekstri, hljóti eigendum skólans að vera frjálst að fara með þann afgang á þann hátt sem þeir telja skynsamlegast hverju sinni. Telja þeir ástæðu til að greiða sjálfum sér arðinn út eða telja þeir ástæðu til að setja hann inn í og enn bæta skólastarf? Sem skólamanneskja mundi ég að sjálfsögðu velta fyrir mér hvort ekki væri hægt að gera gott skólastarf betra. Ég hef þá trú að flestir færu þá leið að endurbæta skólastarf enn frekar, veita jafnvel þeim sem þar starfa hlutdeild í þeim arðgreiðslum sem til greina kæmu ef skólinn væri rekinn með þeim hætti að hann skilaði arði.