139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[15:22]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Já, við getum algjörlega verið sammála um að þarna er farið út fyrir þau mörk sem teljast siðleg vegna þess að um er að ræða ofgreiðslur til þess skóla eftir því sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Að því leyti erum við sammála, við hv. þm. Skúli Helgason. Ég útskýrði líka af hverju og hvernig ég teldi að ef einkaskólar gerðu það samkomulag við ráðuneytið að fá til sín nemendaígildi og stæðust þær kröfur sem þjónustusamningurinn gerði um menntun og annað þess háttar en skiluðu samt afgangi væri eigendum skólanna frjálst að fara með þann afgang á þann hátt sem þeir kysu. Á nákvæmlega sama hátt er mér kunnugt um að innan grunnskólans eru líka nemendaígildi, ákveðinn kostnaður á bak við hvern nemanda. Skólinn hefur þetta til umráða og ef skólinn hefur einhverra hluta vegna farið þannig með fé að hann á eftir einhverjar milljónir í lok árs eða þegar líður á árið hefur hann getað annað tveggja; fært það með sér yfir á næsta ár eða nýtt það til að endurbæta ýmislegt í skólanum, hugsanlega breyta kennsluháttum sem hugsanlega kostar meira. Skólanum er frjálst innan þeirra verðmæta sem hann hefur að nýta þau. Standi skóli þannig að rekstri með nemendaígildum sínum að hann á eftir fé í lok ársins á ekki að hrifsa það af honum á næsta ári vegna þess að rekstur skólans var góður.

Ég held að þetta sé líka grundvallarhugsun sem menn þurfa að fara í í sambandi við skólann vegna þess að skólastjórinn, hvort sem hann er í leik-, grunn- eða framhaldsskóla eða háskóla, ber ábyrgð á faglegum og rekstrarlegum þáttum síns skóla.