139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[15:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst að skoða þurfi vandlega hvernig þjónustusamningar eru gerðir, bæði hvaða girðingar eru settar í samninginn og hvernig eftirliti með því að samningurinn sé uppfylltur er háttað.

Það er hins vegar ljóst, varðandi samninginn sem gerður var árið 2007, eða endurnýjaður árið 2007 við Menntaskólann Hraðbraut, af þeim gögnum sem fjárlaganefnd hafði, að menntamálaráðuneytið vissi t.d. ekki af þessum arðgreiðslum. Menntamálaráðuneytið hafði ekki nægilegar upplýsingar um fjárhagsstöðu skólans að okkar mati til þess að gera þennan framhaldssamning. Það er aðalatriðið í þessari niðurstöðu okkar varðandi samninginn 2007.

Ég hef sjálf stýrt skóla þar sem við borguðum umframígildi og við fengum líka uppgjör í hina áttina. Mér er hins vegar kunnugt um það að ef skólar lenda í sérstökum vandræðum, það eru einhverjar sérstakar aðstæður, er komið til móts við þá með ýmsum hætti en það er ekki staðlað. Tekið er tillit til þeirra aðstæðna sem skólinn býr við, hvað varðar fjölda nemenda, hvort skólinn er splunkunýr eða hvort eitthvað sérstakt hefur komið upp á.

Ég hef ekki á hraðbergi staðlaðar skoðanir eða mælistiku sem leggja eigi yfir allt skólakerfið. Mér finnst hins vegar að endurskoða þurfi alla þessa umgjörð og gæta samræmis og kröfur þurfa að vera svipaðar óháð rekstrarformi.