139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[15:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir svör hennar. Ég þekki skólastjóratíð eða skólameistaratíð hennar og veit að hún hefur rekið Fjölbrautaskóla Suðurnesja og starfað þar lengi sem og starfað í ráðuneytinu þannig að hún þekkir skólamálin almennt fjarska vel.

Mig langar að spyrja hana almennt um rekstrarform, hvort sem það heitir eignarhaldsfélag, samvinnufélag, hlutafélag eða skólar reknir af hinu opinbera eins og flestallir framhaldsskólar eru, hvort hún sé hlynnt því að samhliða opinberum skólum séu til einkareknir framhaldsskólar með öðru sniði til að mæta þörfum ólíkra nemenda ef þjónustusamningur er gerður og hvort hún telji að rekstrarformið, hvort sem um er að ræða eignarhaldsfélag, samvinnufélag eða hlutafélag, eigi að skipta meginmáli eða hvort þjónustusamningurinn um markmið og rekstur skólans eigi að vera svo skýr að rekstrarformið sjálft skipti ekki máli.