139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

framkvæmd þjónustusamnings við Menntaskólann Hraðbraut.

380. mál
[16:00]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að ég hafi sagt þetta. En meiningin í því sem ég er að segja er sú að þegar af stað fer nýr skóli — við vitum að það hefur oft gerst — og í ljós kemur t.d. að fleiri nemendur koma inn í skólann en gert hafði verið ráð fyrir eða breyta þarf húsnæði eða öðru slíku þá veit ég að tekið hefur verið tillit til þess. En að sjálfsögðu ætlaði ég að segja að ef um ofgreiðslur væri að ræða á að sjálfsögðu að jafna því út á næstu annir. Þannig er það almennt með hina opinberu skóla. En eftir sem áður held ég að þetta mál sé af tvíþættum toga. Annars vegar var eftirlit ráðuneytisins ekki nógu gott en hins vegar kemur upp mjög óvenjulegt mál þegar farið er að greiða út arð. Það er eitthvað sem við þekkjum ekki almennt þannig að ég vona og veit reyndar að við erum mjög sammála í þessu máli.

Þetta er mjög sérstakt mál vegna þess, og þess vegna var skýrsla ríkisendurskoðanda um málið unnin, hvernig farið var með þessar umframgreiðslur.